Stétt með stétt
4.3.2025 | 10:14
Í formannskjöri Sjálfstæðisflokksins um helgina sigraði Guðrún Hafsteinsdóttir Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur með naumum meirihluta. Guðrún kemur af landsbyggðinni sem er bæði styrkur en samtímis veikleiki gegn kerfis- og akademíska alræðinu í Reykjavík. Sjálfstæðisstefnan á djúpar rætur í hjörtum Flóamanna og á Suðurlandi, fólk þar er að öðrum landsmönnum ólöstuðum skynsamt og harðduglegt. Það er í skærri andstöðu við uppjafarsnobbelítu rykfallinna fræðigrúskara, orkusugur stefnulausra vinstrimanna og ítök andlausra kerfiskrabba sem halda allri athafnamennsku í rennusteininum.
Frá Flóanum komu einnig ráðin sem björguðu þjóðinni í Icesave. Að Guðrún hlaut formannskjör bendir til vitundarvakningar meðal landsfundarfulltrúa að breytinga sé þörf eins og einnig sést á kjöri ungliða í miðstjórn flokksins. Viðspyrna kerfisfólksins er hins vegar veruleg. Kerfisfólkið lifir á starfi í þágu hins opinbera og er háð að flokkur í valdstjórn sé sá rétti" svo lífsafkomunni verði ekki ógnað. Það var þess vegna ánægjulegt að heyra orð hins nýja formanns, að hún væri ekki í stjórnmálum fyrir eigin persónulegan ávinning heldur í auðmjúku starfi fyrir kjósendur og þjóð sína. Árnaðaróskir til nýja formannsins með óskum um skjótan bata á slagsíðu flokksins.
Það verður spennandi að fylgjast með því hvernig Guðrúnu Hafsteinsdóttur muni ganga með myndun þeirrar breiðfylkingu sem hún stefnir að bæði með virkjun nýrra kjósenda sem og heimköllun pólitískra flóttamanna flokksins í tíð Bjarna Benediktssonar. Það starf verður hvorki einfalt né auðsótt, því reglan í samskiptum er sú að til að endurheimta fyrra traust þarf að að greiða tólf sinnum hærra verð en mistökin hafa kostað. Það þýðir að krafturinn og baráttuandi sjálfstæðisstefnunnar þarf að tólffaldast til að ná fyrra trausti meðal landsmanna og koma flokknum aftur yfir 30% markið. Það er ekki einfalt og verður erfitt með svo stóran hluta flokksins enn í álögum fv formanns.
En flóttamennirnir að mér meðtöldum munum líta með afar gagnrýnum augum á framkomu flokksins og krefjast raunverulegra staðfestra aðgerða og breytinga áður en hægt verður að endurheimta fyrra traust. Stjórnmálin á Íslandi eru í ESB-höndum, sjálfstæð hugsun í skötulíki, menntun hjómið eitt notað til að framleiða heiladauða einstaklinga rændum möguleikum á gagnrýnni hugsun. Núverandi ríkisstjórn er lýðræðisleg í orði en amtsstjórn ESB á borði.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur möguleika á því að endurheimta traustið með því að sækja efnivið í sameiningu Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins 25. maí 1929. Frjálslynd stefna undanfarinna ára hefur tekið stórt stökk til vinstri. Kerfisræði, persónulegt hagsmunapot og vinstri stefna sósíalíska Internationalen á ekki heima innan veggja Sjálfstæðisflokksins. Vinstri menn kunna að nýta sér veikleika flokksins til að sundra sjálfstæðismönnum og vinna daglega að slíkum skemmdarstörfum.
Sjálfstæðisflokkurinn þarf að sýna siðabót og fyrsta verkið er að berjast gegn því að bókun 35 verði samþykkt. Ræður nýi formaðurinn við það?
![]() |
Ég ætla að vera breiðfylking |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning