Óttist ei valkyrjurnar bjarga heiminum
2.3.2025 | 07:41
Zelenský getur verið bæði ánægður og rólegur. Hver á eftir öðrum stíga amtstjórar hins volduga ESB-ríkis fram og kyssa á fætur hans, votta honum hollustu og lofa að skera niður velferð íbúanna og afhenda honum tíund sína svo hægt verði að tryggja heimsstríðið við myrkrahöfðingjann í austri, Pútín hinn hræðilega. Komið hefur í ljós í fertugasta og sjöunda sinn, að Trump er njósnari Pútíns, í reynd hægri hönd hans á Vesturlöndum. Pútín stjórnar núna Rússlandi, Bandaríkjunum og Kína og ESB því í hættu statt sem síðasta von mannkyns, þegar Pútín stefnir að heimsyfirráðum.
Þegar Bandaríkjamönnum sjálfum hefur mistekist, þrátt fyrir hreystilega baráttu herforingja, leyniþjónustu, dómsmálaráðuneytis, laumumorðingja, öflugustu fjölmiðla heims og hugrakkra demókrata, að fella Trump hinn hræðilega, þá er ljóst að sækja verður styrk annað til að bjarga heiminum. En óttist ei. Í norðri finnst eyja valkyrjanna sem mun skapa þann kraft sem bjarga mun heiminum frá þeim hræðilegu, Pútín og Trump. Krafturinn er svo mikill að slær bjarma á himinn, súla sem nær út í geim og flytur með sér orku til allra sem berjast gegn Rússlandi og Bandaríkjunum. Er hún svo sterk að jafnvel Musk með öllu Spacex fær ekki rönd við reist.
Zelenský fær Norðurljós til að flengja hermenn Rússa og Bandaríkjanna með dauðlegri segulsvipu sem tryggir lokasigurinn. Í hinu fjórða ríki friðar og farsældar sem byggt verður í kjölfarið verða til óendaleg mörg kyn, engir foreldrar lengur til, hvorki mæður né feður. Systkin munu hverfa, bræður og systur með þeim og ESB verður eitt allsráðandi á jörðu. Öll hatursumræða niður grafin með líkum óvinarins og allir ávarpaðir í hvorugkyni.
36 manna lið valkyrjanna að þeim sjálfum meðtöldum slá út bæði æsi og vani og samanlagðan kraft guðanna í Kaos. Heimurinn drýpur af lotningu yfir þessum nýja bjargvætti sem núna stígur fram til að bjarga mannkyni frá glötun. Hvaðanæva úr heiminum streyma hyllingarnar til Kristrúnar Frostadóttur, Þorgerðar Gunnarsdóttur og Ingu Sæland:
Verið sterkar, verið hugrakkar, óttist ei. Þið verðið aldrei einar. Við erum með ykkur.
Valkyrjurnar munu snúa niðurlægingu Trumps á Zelenský upp í stærsta ósigur Trumprússans nokkru sinni. Eftir að sigurrödd valkyrjunnar heyrist í alþjóðastofnunum mun Trump verða úthýstur frá WHO, SÞ, Parísarsáttmálanum, WEF og fleiri virtum stofnunum sem aftur ná jafnvægi vegna góðmennsku- og viskugeislans frá Íslandi.
Við sem erum þeirri óendanlegu gæfu gædd að hafa fæðst á eyju valkyrjanna og getum sannað með vegabréfi munum njóta virðingar og forgangs um alla jörð. Alls staðar mun fólk bukta sig og beygja og segja:
Þið komið frá landi Valkyrjanna. Þakkir og virðing að eilífu fyrir kraftinn, peningana og vopnin sem náðu að vinna bug bæði á Pútín og Trump. Ísland það lifi."
Á þessum sögulegu tímum er gott að vera Íslendingur sem fær að njóta og vísa til gáfnafars og gjörvileika valkyrjanna sem bjarga munu heiminum. Jafnvel skaparinn sjálfur kemst ekki með tærnar þar sem dömurnar hafa hælana.
![]() |
Ætluðu að láta Selenskí ganga á dyr |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:39 | Facebook
Athugasemdir
Stríðsæsingarfólkið fékk á baukinn á fundinum í Hvíta húsinu og árangurinn er ótvíræður. Fundur "leiðtoganna" í Evrópu talar í fyrsta skipti fyrir friði í dag þar sem Trump telur að eftir dónaskapinn í Selensky þá sé USA ekki lengur bundið af loforðum forvera hans í embætti um ótakmarkaðan stuðning við stríðsreksturinn í Úkraínu
Grímur Kjartansson, 2.3.2025 kl. 13:11
Öllu gamni fylgir nokkur alvara, líkt og óhætt er að segja um þessu ágætu færslu þína Gústaf.
Jónatan Karlsson, 2.3.2025 kl. 15:19
Þakka ykkur heiðursmenn fyrir innlit og athugasemdir og góð orð.„Friður" leiðtoganna er sérstakur: vopnahlé í lofti og hafi í einn mánuð, fullt stríð áfram á jörðu. ESB fer í gang að byggja upp eigin her, friðarbandalagið er orðið að stríðsbandalagi, efnahagskerfi aðildarríkjanna umstillt á stríðsrekstur, Svíþjóð undirbýr sig fyrir komandi stórstyrjöld við Rússa. Svo alvaran er dauðans......
Gústaf Adolf Skúlason, 3.3.2025 kl. 00:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning