Þarf þjóðin slíka alþingismenn?

 

ThordisKatrinReykfjordÍ viðskiptalífinu er talað um hagsmunaárekstur, að ekki sé hægt að þjóna tveimur samkeppnisaðilum samtímis. Sálin verður á einum stað en ekki öðrum. Það sama gildir í pólitíkinni, það er að segja ef stjórnmálamenn ganga ekki um allt með sólgleraugu í myrkri og þykjast ekki sjá neina spillingu neins staðar.

Sjálfstæðismenn þykjast vera á móti ánetjun landsmanna í ESB. En þegar kemur að feitum titlum, embættum og utanlandsferðum þá falla margir á prófinu. Mótstöðukrafturinn er enginn og það þykir fínt að skreyta sig með stofnananöfnum eins og UN Women, WHO og Council of Europe.

UN Women, WHO og Council of Europe


Sumir muna kannski eftir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi innanríkisráðherra, sem fékk ráðgjafastöðu hjá UN Women 2019 með baráttufólki fyrir réttindum kvenna meðal annars frá Sádí-Arabíu, Yemen, Kína og Sameinuðu Furstadæmunum. Ísland greiddi þá um 234 milljónir króna til stofnunarinnar að sögn Kjarnans og var 35 milljónum króna varið árlega í verkefni Hönnu Birnu. Það voru því íslenskir skattgreiðendur sem greiddu launin hennar svo hún gæti spókað sig með fínan titil og laun og lært af aröbum og kínverjum hvað konum sé fyrir bestu.

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna sem Sjálfstæðismenn gerðu að forsætisráðherra án þess að þjóðin hefði beðið um það, hikaði ekki við að taka við sendiherrastöðu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar SÞ til útbreiðslu- og áróðursstarfa samhliða forsætisráðherraembætti Íslendinga. Hvað fékk hún mikið í laun fyrir það samhliða launum sem forsætisráðherra? Kannski verður sama svar og áður: Íslenskir skattgreiðendur greiða milljónir ofan á milljónir til WHO en „launasamningurinn er alfarið á könnu WHO." Þannig er landsmönnum talin trú um að greiðslurnar komi erlendis frá, þegar þær eru í reynd borgaðar af íslenska ríkinu.

Og svo er það hún Þórdís Kolbrún Reykdal Gylfadóttir sem fengið hefur stöðu sérstaks erindreka hjá Evrópuráðinu í málefnum barna í Úkraínu samtímis sem hún gegnir stöðu alþingismanns fyrir Íslendinga. Aðspurð í Mbl. segir hún að starfið sé „ólaunað og muni engin áhrif hafa á störf sín á þinginu." Trúi því sem trúa vill.

Hagsmunum Íslands vikið til hliðar fyrir titla og merkilegheit


Sameiginlegt með öllum þessum flóttapólitíkusum er að þeir setja hagsmuni Íslands á lægri skör en persónulegan áhuga á ferðalögum, titlum, kokteilboðum og merkilegheitum fjarri Fróni sem enginn Íslendingur hefur beðið um. Íslenskir skattgreiðendur verða samt látnir borga brúsann undir mismunandi feluklútum.

Trúir því einhver að slíkir Alþingismenn beri hag Íslands fyrir brjósti? Kjósendur kusu ekki þetta fólk í þessi embætti. Alþingismennirnir hafa sjálfir sóst eftir þeim og fengið úthlutað, kannski fyrir einhvern góðan greiða fyrir ekki óskemmtilegri markmið en að taka völdin af landsmönnum eins og ESB reynir að gera og WHO slíkt hið sama í heilbrigðismálum.

Að fullyrða að þessi störf hafi engi áhrif á launuð þingstörf er það sama og segja, að alþingisstörfin séu svo lítilvæg að það megi alveg eins senda sálina til Brussel, Genf, Washington eða Strassburg og skilja eftir sálarlausan líkamann í stól á Alþingi.


mbl.is Segir stöðuna ekki hafa áhrif á þingstörf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband