Svíþjóð er í losti
6.2.2025 | 09:47
Óhætt má segja að Svíþjóð sem land sé í losti eftir fjöldamorðið í Örebro í vikunni, þegar 11 manns voru myrtir og sex að auki særðir eftir skotárás geðveiks sænsks manns í skóla í Örebro. Silvia drottning Svíþjóðar spurði þá spurningu sem margir hafa spurt að undanförnu vegna sprengju- og skotárása glæpahópanna og svo núna eftir þetta fjöldamorð: Hvað varð um hina góðu Svíþjóð?"
Augljóst er að dauðlegt ofbeldi birtist á margvíslegan hátt enda margvíslegar ástæður að baki. Það sem er orðinn hversdagsleiki í Svíþjóð eru daglegar sprengingar og skotárásir, þar sem glæpahópar eru í stríði hver við annan um markaðssvæði eiturlyfjasölunnar. Það stríð hefur aukist og einnig breyst, því núna eru glæpahóparnir með hefndaraðgerðir í fjárkúgunarmálum gegn fyrirtækjum og eigendum fyrirtækja sem er hrikaleg þróun. Ef hún verður ekki stöðvuð mun það hafa mjög neikvæð áhrif á frumkvæði og viðskiptalíf.
Hryðjuverk íslamskra vígamanna
Kóranbrennur í Svíþjóð og barátta íslamista til að banna slíkt og í raun banna umræðu, gagnrýni og málfrelsi sem nota má fyrir aðra hluti en þá ofsatrú sem setur menn á dauðalista fyrir skopteikningar er einnig stór hluti þeirrar ofbeldismenningar sem þegar minnst varir getur brotist út í heilagstríðshryðjuverk líkt og á Drottningargötu í Stokkhólmi, þegar maður kom á bíl og reyndi að drepa alla þá sem á vegi urðu. Óteljandi slík dæmi er að finna um alla Evrópu síðustu árin og fer því miður fjölgandi.
Varðandi fjöldamorðin í Örebro, þá vinnur sænska lögreglan á breiðum grundvelli og vill ekki útiloka að bæði fleiri einstaklingar og hugmyndafræðilegar ástæður gæti verið að baki ódæðinu. En lögreglan hefur ekki getað fundið neitt enn þá sem bendir til þess að sögn. Einnig er unnið með þá mynd sem allt bendir til að gæti verið skýringin, að fjöldamorðinginn Richard Andersson sem sýndi fljótt af sér mannfælni sem ungur maður, hafi verið geðveikur og að hann hafi verið að hefnast fyrir að félagsmálastofnun tók af honum bætur, þegar hann sótti ekki um vinnu eins og ætlast var til.
Fjöldamorðinginn geðveikur Svíi á félagsbótum
Richard Andersson hét áður Jonas Simón en breytti um nafn. Hann var algjörlega háður félagsbótum til að komast af, því hann hefur engar eða mjög takmarkaðar tekjur haft síðan 2014. Hann hafði sjálfur verið nemandi í kennslu fullorðinna í skólanum þar sem hann framdi ódæðið. Þá hafa einnig komið fram upplýsingar um að hann hafi ekki skotið alla sem hann mætti heldur hafi valið fórnarlömbin. Þannig bendir ýmislegt til að hann haft meðvitaða áætlun með fjöldamorðunum. Hann hafði byssuleyfi fyrir fjórum vopnum og notaði þrjú þeirra ásamt hníf við ódæðið.
Hvað svo sem ástæðum að baki hins dauðlega ofbeldis í Svíþjóð líður, þá er einn hlutur ljós: Yfirvöld hafa brugðist samfélaginu og geta ekki tryggt öryggi íbúanna lengur. Lögreglan verður að útskýra hvernig þessi maður gat fengið byssuleyfi fyrir fjórum byssum. Yfirvöld verða að útskýra af hverju þau hafa hleypt morðhundum og heilagstríðsmönnum inn fyrir landamæri Svíþjóðar.
Yfirvöld hafa svikið
Að þetta fjöldamorð breyti afstöðu yfirvalda er ekki fyrirsjáanlegt miðað við fyrri reynslu. Á meðan enginn lýsir yfir neyðarástandi, notar herinn og segir eiturlyfjahringjunum stríð á hendur, þá mun allt halda áfram eins og venjulega" með daglegum sprengjum og skotárásum, þar til næsti brjálæðingur lætur til skarar skríða eða að sprengjuhryðjuverk verður framið á fjölmennum stað með tugum eða mörg hundruðum myrtum.
Svik stjórnmálanna við eigin landsmenn er algjört. Þess vegna tala sænsku konungshjónin beint úr hjarta þjóðarsálarinnar, þegar Drottning Silvia hvetur landsmenn til að byggja aftur upp hina gömlu góðu Svíþjóð með því að skilja og hlúa að því sem er sænskt. Í yfirlýsingu konungs lýsir konungur sorg og skelfingu yfir ódæðinu í Örebro. Fánar eru í hálfa stöng.
Svíþjóð er í losti.
Svíakonungur vottar virðingu sína | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning