Donald Oddsson og Davíð Trump

 

1trumpdavid

Laugardagsmorgnar eru góðir morgnar. Þá er hægt að fá sér ilmandi kaffi upp í rúmi með Morgunblaðið í spjaldtölvu og lesa hið eilífa fræðandi Reykjavíkurbréf. Höfundur Reykjavíkurbréfsins hefur meiri reynslu en flestir aðrir á sviði stjórnmálanna enda sigldi hann sem góður skipstjóri þjóðarskútunni á mesta framfaraskeiði þjóðarinnar á lýðveldistímanum.

Í stjórnartíð Davíð Oddssonar komst þjóðin til álna vegna þróttmennsku sjómanna og bænda, verslunar- og verkafólks og samanlagt harðduglegra Íslendinga á þessu eldfjallaskeri í miðju Atlantshafi. Ágætis viðskiptasamningar voru gerðir við fjölmörg ríki og bjartsýni ríkti.

Í borgarstjórnartíð Davíðs í Reykjavík blómstraði borgin og ástir ungmenna í vorþey hlýjum við Reykjavíkurtjörn. Reykjavík varð heimsfrétt þegar friðarfundur Reagans og Gorbatjov var haldinn í Höfða og hefði verið haldið rétt á spilum í seinni tíð hefði verið hægt að endurreisa þann glæsibrag og kyndil friðar með nýjum fundi Trumps og Pútíns á næstu dögum.

En landsmenn vita sjálfir best hvernig sagan fór sem hófst með deilum Jóns við Davíð sem stofnaði heilt fjölmiðlaveldi til að breiða út tröllasögur um seðlabankastjórann sem bjargaði Íslandi af skrá hryðjuverkasamtaka vegna afreka þess fyrrnefnda. Þjóðin valdi síðan eiginkenningaprófessor sem forseta og núna loftslagspáfa í peysufötum með kolefnismæli á Bessastöðum.

Yfirferð Reykjavíkurbréfsins um það mótlæti sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur mátt þola og sigra hans í baráttunni við svindlara, dólga og morðingja, vekur upp minningar um allt það óréttlæti og allar þær lygar sem hafðar voru frammi gegn Davíð Oddssyni af andstæðingum hans og Sjálfstæðisflokksins. Um tíma var gerður aðsúgur að heimili hans sem líkja má við umsátur og líf hans í hættu. Þarna tókst blekkingavélinni vel upp, því Davíð Oddssyni var bolað á fullkomlega ólöglegan hátt úr embætti Seðlabankastjóra og lög þverbrotin með ráðningu norsks manns í hans stað. Á eftir var gerð aðför að Geir Haarde og Samfylkingin sveik, því svik eru það eina sem sú fylking kann.

Fyrsta algilda, fullfjaðraða vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur vann illvirki á þjóðinni með tilraun til að kasta landsmönnum í skuldahlekki útrásarvíkinga með fáheyrðum Icesave samningum. Davíð Oddsson lagði fram stefnu frá heilræði ömmu sinnar að ekki eigi að borga skuldir óreiðumanna. Þeir sem bera ábyrgð skulu og hana axla. Þessi stefna sem óvinir Íslands áttuðu sig ekki á í fyrstu vann yfir útrásarvíkingum, truflaði árásir erlendra stjórnmálamanna og sigraði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sem pantaði sæti á fyrsta bekk til að hlæja að óförum Íslendinga þegar Iceavedómurinn loksins kom. Hræðslupúkar Kúbu norðursins létu í minni pokann.

Vegna þeirra átaka og atburða sem eru að gerast bæði á Íslandi og annars staðar leyfi ég mér að vitna í lokaorð Reykjavíkurbréfsins og hvet alla sem einhverja tilfinningu hafa fyrir íslenskri þjóð að lesa vel og vandlega. Doka við og hugsa málin:

„Trump er búinn að svara spurningum blaðamanna oftar á þessum fjórum dögum en Joe Biden gerði á tveimur árum eða lengur! Fullyrt er að hann taki á hverjum degi eins mörg símtöl eins og honum er unnt og nú síðast ræddi hann við fulltrúa í Davos í Sviss (sem hann hefur lítið álit á). Hann hefur sagt Bandaríkin frá WHO, Heilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna, sem hann hefur, eins og fleiri, lengi haft fyrirlitningu á. Hann hefur dregið Bandaríkin út úr „Global Warming“, sem hann lítur á sem hvert annað bjánatal, þótt búið sé að fá ríki heims til að henda stórkostlegum upphæðum út í buskann, og er enn mjög óljóst hvaða svindlarar hafa hrifsað allt þetta firna fé til sín. Það eina sem er víst er að almenningur fær ekki krónu.“

„Trump hefur tilkynnt að Bandaríkin vilji ekkert hafa með Parísarsamkomulagið að gera, en það var ein aðferð við að stýra ótrúlegum fjármunum út í buskann. Ísland dinglaði með í allri vitleysunni og hefur það kostað þjóðina ógrynni fjár, sem betur hefði farið í annað. En kjánarnir höfðu gleymt því að Ísland hafði verið með allt sitt á þurru í áratugi og því fráleitt að henda aragrúa fjár héðan yfir til sóðanna sem hafa verið með allt niðrum sig í áratugi. Síðasta ríkisstjórn asnaðist til að vera með sérstakan loftslagsráðherra, sem hefur ekkert verkefni annað en að ná peningum af almenningi og senda þá líka út í buskann, enda hálfri öld á eftir okkur. Rúmar 240 milljónir, en einn „aðalráðherrann“ hafði gleypt þessar summur hráar í þrjú ár. Og augljóst er að „nýja ríkisstjórnin“ ætlar ekki að hlutast til um það sem tekið var ófrjálsri hendi. „Nýja“ ríkisstjórnin er þar með orðin „gamla, slitna stjórnin“ og er ótrúlegt hversu hratt hún hrörnaði.“

Lokaorð Reykjavíkurbréfsins eru:

Falleg mynd Árna Sæberg prýðir bréfið og Hannes prýðir myndina. Bráðungur maður yrkir hann:

Ef verð jeg að manni, og veiti það sá,
sem vald hefur tíða og þjóða,
að eitthvað jeg megni, sem lið má þjer ljá,
þótt lítið jeg hafi að bjóða,
þá legg jeg, að föngum, mitt líf við þitt mál,
hvern ljóðstaf, hvern blóðdropa, hjarta og sál.“

Davíð Oddsson er tær Íslandsvinur og hefur lagt sitt líf við mál þjóðarinnar, hvern ljóðstaf, hvern blóðdropa, hjarta og sál.

Hugsið um það. Og berið síðan saman við það úrval stjórnmálamanna sem þjóðinni er boðið upp á í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnar Þór Jónsson

Takk fyrir þessa samantekt Gústaf. 

Arnar Þór Jónsson, 25.1.2025 kl. 16:36

2 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

Takk fyrir innlit og góð orð Arnar Þór. Þín skrif skulu lofuð líka, sannleikans orð að fullu. Það er kallt um þessar mundir á bananahýði lýðveldisins ....

Gústaf Adolf Skúlason, 25.1.2025 kl. 20:33

3 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Svo rétt lýsing "Bananahýði lýðveldisins"

Davíð hefur alltaf verið minn maður og einn

sá besti sem við höfum haft. En því miður tókst

lýðskrumurum og landráðamönnum að koma honum frá.

Það má segja að frá því hefur landið verið stjórnað

af fólki sem vill Íslandi allt illt.

Sorglegt en satt.

Sigurður Kristján Hjaltested, 25.1.2025 kl. 23:19

4 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Eg komst við er ég las fyrstu hendingu ljóðs Hannesar Hafstein "Astarjátning til Íslands",svo oft hef ég lesið öll 5 erindi í þessari undurfögru játningu.  

Helga Kristjánsdóttir, 25.1.2025 kl. 23:46

5 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

Sæll Sigurður og þakka innlit og athugasemd. Ég er fyllilega sammála þér með Davíð Oddsson. Enginn kemst í klæðin hans hvað varðar drenglyndi og heiðarleika og hreint hjarta fyrir þjóðina. Vinstrimenn hafa leikið og leika afar ljótan leik á Íslandi. 

Gústaf Adolf Skúlason, 26.1.2025 kl. 07:49

6 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

Sæl Helga og takk fyrir athugasemd. Þetta er svo hreinn kærleikur að maður tárast við lesturinn. 

Gústaf Adolf Skúlason, 26.1.2025 kl. 08:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband