Enginn hlustar þar til allir deyja

Vek athygli á mjög góðu viðtali Atla Steins Guðmundssonar, Morgunblaðinu, við hinn viðkunnanlega Diamant Salihu sem er tíður gestur í sænska sjónvarpinu til að ræða stríð glæpahópanna í Svíþjóð sem oftar en ekki er stjórnað erlendis frá. Er um harðsvíraða innflutta glæpamenn, eiturlyfjasala og morðingja að ræða sem hafa gjörbreytt sænsku samfélagi á undanförnum tíu árum. Fjölmiðlar greina daglega frá skotárásum og sprengjuódæðum eins og núna SVT til dæmis í morgunsárið, sprengjuódæði við anddyri fjölbýlishúss í Uppsala:

sprengjuodæði

Morgunblaðið er líklega eini fjölmiðillinn á Íslandi sem segir eitthvað frá þessu og skal hafa þakkir fyrir. Ég hef búið í Stokkhólmi síðan 1984 og hef með eigin augum séð þá grundvallarbreytingu sem orðið hefur í kjölfar hömlulauss innflutnings vegna opinna landamæra. Lengi vel mátti ekki tengja innflytjendur við ofbeldisverkin vegna pólitísks rétttrúnaðar en núna hefur það breyst örlítið til batnaðar samtímis sem stutt er í rasista- og hatursorðræðustimpilinn. Því miður, þá hafa Íslendingar elt Svíana í þessari ógæfuferð og ég hef mörgum sinnum bent á takmarkanir fámennrar lögreglu á Íslandi í viðureign við vel vopnaða alþjóða glæpahópa. Það er svo sorglegt að horfa upp á skilningsleysið í viðureigninni við þennan glæpalýð að stundum óskar maður sér þess að þurfa hvorki að vera Svíi eða Íslendingur. Rafbyssur geta gengið gegn byssulausum bófum en glæpahóparnir skilja ekkert nema hrátt ofbeldi og stálkúlur. Það er eina málið sem þeir skilja. 

Svíar eru orðnir gíslar daglegs ofbeldis, skotárása og sprengjuódæða. Lögreglan gengur út með leiðbeiningar til foreldra og barna, skóla og vinnustaða ekki síst verslana. Fyrirvaralaus hnífadráp í venjulegum matvöruverslunum hafa aukist, þegar morðingi birtist allt í einu og velur sér einhvern búðargest til drepa. Núna verða allir að ræða málin stöðugt og vera viðbúnir því versta með tilbúnar áætlanir um flóttaleiðir og aðrar öryggisráðstafanir gegn öllu ofbeldinu. Lögreglan viðurkennir opið að hún ráði ekkert við ástandið og segir við almenning: „Ekki vera hrædd en verið viðbúin."

Í öðrum ríkjum taka menn alvöru stríð gegn morðingjum og hryðjuverkamönnum glæpahópanna með því að skilgreina þá réttilega sem hryðjuverkahópa. Þá er hægt að sameina afl hers og lögreglu og ganga skilvirkara fram.

Í fyrra voru 44 manns drepnir og 57 særðir í 270 opinberlega skráðum skotárásum í Svíþjóð. 129 heppnuð sprengjuódæði, 60 misheppnuð og undirbúningur að 317 sprengjuódæðum að auki sem fóru út um þúfur eða lögreglan kom í veg fyrir. Þá er eftir að telja með hnífamorð og önnur dráp, líkamsárásir og pyndingar að ekki sé minnst á allar nauðganirnar.

Svíþjóð er ekki frjálst land lengur. Ég ræði einungis núna um sprengjuódæðin og skotárásirnar sem hryðjuverk. Lái mér það hver sem vill.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband