SOS Guðlaugs Þórs til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar
27.8.2023 | 10:00
Loksins hefur Guðlaugur Þór Þórðarson Gulli Græni" tekið sér stöðu sem stjórnarandstæðingur í Miðflokknum með bréfi í Mbl þann 26. ágúst s.l. Það hlaut að koma að því, jafn heillaður og Guðlaugur Þór er af stjörnu flokksins, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Kærleikshatursdrápa Gulla Græna til Sigmundar, þegar sá síðarnefndi beit í hlekki Evrópusambandsins sem sá fyrrnefndi var að reyra um orkuauðlindir Íslands í þriðja orkupakkanum, sendi bæði Beethoven og Strauss í skammarkrókinn.
ESB ópera Gulla Græna var slík að tónarnir heyrðust til Brussel, Genf og New York, þar sem vefarar glóbalista sitja ekki auðum höndum og spinna fjötra fyrir jarðarbúa alla daga.
Tóku þeir íslenska söngfuglinn í þjónustu sína og fjöðruðu þannig, að einungis fjaðrir loftslagskeisarans sjálfs, John Kerry, skína betur. Orkumálaráðherra Íslands er kominn á bólakaf í sölu á ónýtu rándýru grænu drasli ríkisfyrirtækja kínverska kommúnistaflokksins: Vindmyllur sem endast þegar best lætur í 25 ár og eru svo eitraðar að urða verður þær á eftir. Bókhald orkumálaráðherrans byggir ekki á raunveruleikanum og sýnir á rafmagnsreikningum, að keypt er kjarnorkuframleitt rafmagn á Íslandi. Sérhvert mannsbarn veit samt, að það er ekki satt. Bókhaldssvik nútímans eru réttlætt með sjálfri lyginni. Stöðugar árásir, sem gerðar eru á stjórnarskrá lýðveldisins með orkupökkum, EES hótunum og svo núna síðast með bókun 35, hafa það að markmiði að afnema stjórnarskrá lýðveldisins sem samþykkt var á Þingvöllum 17. júní 1944. Gulli Græni fer til sögunnar með þeirri kaldhæðni, að síðustu flokkarnir að forminu til frá lýðveldisstofnun, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, verða þess valdandi meðal annars með þátttöku hans, að lýðveldinu endist ekki líf í 100 ár.
Orkumálaráðherrann er búinn að mála sig út í horn í ógöngum eigin ákvarðana. Eina ráðið sem hann hefur er að kenna einum stjórnmálaandstæðingi um allt saman. Fyrir utan að opinbera þyngd þess stjórnmálamanns, þá er grein Guðlaugs Þórs Þórðarsonar SOS kall til Sigmundar um að bjarga sér. Allir skilja að fólk þróast og aðstæður breytast. En Gulli Græni situr fastur í fortíðinni búinn að týna öllum áttum.
Vonandi hleypir Miðflokkurinn manninum inn, þó ekki væri nema til að róa hann og hugga, búa vel að honum svo hann geti náð jarðtengingu á ný.
Ísland farsælda frón með gullaflón skapar þjóðinni tjón sögðu vitur hjón.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:04 | Facebook
Athugasemdir
Smellin grein Gústi og skemmtileg aflestrar og botninn varð sannarlega ekki eftir í Borgarfirði!
Ingimundur Bergmann, 27.8.2023 kl. 10:26
Þakka þér Íngimundur fyrir falleg orð. Bestu kveðjur frá mér séð vestur í hérað.
Gústaf Adolf Skúlason, 27.8.2023 kl. 10:34
Frábær pistill að vanda hjá þér Gústaf.
Tek undir með Ingimundi, botninn varð sannarlega
ekki eftir í Borgarfirði.😂
Sigurður Kristján Hjaltested, 27.8.2023 kl. 16:11
Sæll Sigurður, þakkir fyrir góð orð þín. Lifðu heill.
Gústaf Adolf Skúlason, 27.8.2023 kl. 19:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.