Morgunblaðið með fingurinn á púlsinum
11.7.2021 | 09:39
Morgunblaðið er með fingurinn á sænska púlsinum og greinir rétt og heiðarlega frá. Þannig hefur einn blaðamaður bloggað ítarlega grein um sænsku skálmöldina og allt rétt og satt sagt þar frá í einstökum atriðum um morðið á lögreglumanni í Gautaborg nýlega.
Það sem er sætast að lesa enda skrifað af manni með gott hjarta, einstaka kímnigáfu og skynbragð á mannlífinu, er Reykjavíkurbréfið í gær en þar skrifar höfundur um furðulegan kollhnís sænskra stjórnmála:
Stefan Löfven, sem knúinn var með vantrausti til þess að segja af sér embætti forsætisráðherra, er nú, fáeinum dögum síðar, kominn í stólinn sinn aftur."
"Flokkunum þótti nú skömminni skást að Löfven hengi áfram og hann var til. Hann hefur þó mjög veikan bakgrunn í þinginu og er því ólíklegur til afreka. Því má binda vonir við að flokkur hans, kratarnir, haldi áfram að týna fylgi og þeir komist jafnvel enn neðar en síðast, sem skilaði þeim verstu úrslitum í heila öld!"
En vandinn við það er aftur sá að það ríkir öngþveiti í Svíþjóð. Um það verður ekki deilt. Það vita þeir sem þar búa og það vita frændur og nágrannar, einnig hér á Íslandi. Allir nema RÚV, sem rekur sérstaka fréttastofu sem vinnur í því frá morgni til kvölds að missa af fréttaefni sem fer í taugarnar á þeim.
Þegar forsætisráðherrann í Svíþjóð tók við embætti sínu á ný sagði hann: Starfið við að mjaka Svíþjóð áfram veginn hefst nú á ný. Við munum áfram vinna að því að byggja upp sterkari, öruggari og enn jafnari Svíþjóð. Hvað slíkt frasatal þýðir veit svo sem enginn. Ef að forsætisráðherrann meinar hins vegar það, að nú einkenni öryggi sænska tilveru og það sé sú tilfinning sem flestir landar hans hafi, þá gæti hann sjálfsagt auðveldlega fengið vinnu á fréttastofu RÚV að lokinni þessari. Þar virðist skilyrðið stundum ekki annað en að vita hvorki upp né niður og geta komið því á framfæri þannig að enginn sé nokkru nær."
Síðasta setningin er Shakespíristísk snilld og ekki annað hægt en að taka brosandi undir. Ég get staðfest afskaplega gott innihald Reykjavíkurbréfsins um sænsku stjórnmálin, skálmöldina í Svíþjóð og afstöðu RÚV" til málanna og veit af eigin raun að hér er í engu yfirdrifið. Lögreglumenn Svíþjóðar hafa erfiðustu starfsskilyrði allra lögreglumanna í Evrópu, sem er bein afleiðing af stefnu og stjórn sænskra sósíaldemókrata.
Það má segja að sænska kosningabaráttan sé hafin og hún mun ekki verða falleg af hálfu sósíaldemókrata, sem með offorsi munu hræða innflytjendur frá því að kjósa hægri flokka í landinu, sem eru allir nasistar" að mati sósíaldemókrata. En margir innflytjendur sjá gegnum hræðsluáróðurinn, því loforðin um frið og betra líf í Svíþjóð hafa snúist upp í að þurfa að verja sig og líf barnanna fyrir áhrifum og umsvifum glæpagengja sem ráða yfir mörgum svæðum í landinu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:49 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Gústaf,hér ríkir eftirvænting þegar smellur í blaðalúgunni á laugardögum,það eru Reykjavíkurbréf og krossgátan sem valda háþrýstingi.Þakka þér fyrir greinina.
Helga Kristjánsdóttir, 11.7.2021 kl. 15:39
Já, viss atriði halda enn í tilverunni Þakka innlit og góða kveðju Helga og gangi þér allt í haginn.
Gústaf Adolf Skúlason, 12.7.2021 kl. 02:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.