Alvara á ferðum um framtíð Íslands
18.2.2021 | 12:43
Morgunblaðið skrifar í leiðara í gær undir fyrirsögninni Þjóðarkreppa", að
- Íslendingar hafa nú enga leið til að fella burt íþyngjandi ákvarðanir, sem stangast berlega á við stjórnarskrá og er laumað inn eins og ómerkilegustu þingsályktun og skotið fram hjá lögmætum atbeina forsetans með þessari sviksamlegu aðferð. Og með þessari aðferð er hratt og örugglega verið að smygla þjóðinni inn í ESB þvert á vilja hennar og þvert á sjálfa stjórnarskrá landsins."
Ef þessi fullyrðing er sönn er þjóðin stödd í miklum háska.
Það er erfitt að trúa því, hvað þá sætta sig við, að engin leið sé til að fella burt ákvarðanir sem stangast berlega á við stjórnarskrá. Morgunblaðið sagði, þegar Orkupakka 3 var laumað gegnum kerfið sem þingsályktun, að hægt hefði verið um vik að heyra álit Hæstaréttar á málinu svo þingið væri öruggt í gjörðum sínum. Því miður var sú leið ekki farin og virðist sem ríkisstjórnin forðist bæði Hæstarétt og stjórnarskrána í hið lengsta.
Sá góði maður Arnar Þór Jónsson héraðsdómari hefur átt alveg sérdeilis fróðlegar og létt lesnar og skiljanlegar greinar fyrir leikmenn um hvernig lagaramma stjórnarskrárinnar er ætlað að tryggja lýðræði fullveldisins og það sem er okkur öllum dýrmætast, sjálfsákvörðunarréttinn. Hefur hann skýrt samspil laga, dómstóla og lýðveldisstofnana á prýðilegan hátt sem hver og ein einasta manneskja með áhuga á þessum málum ætti að lesa.
Hann speglar einnig raunveruleikann og regluverkið og ræðir þá vankanta sem berlega koma í ljós sem bæði hann og ritsjórar Morgunblaðsins hafa verið svo iðnir við að útskýra fyrir lesendum blaðsins. Af þeim skrifum má sjá, hversu langt sú óheillaþróun er komin á veg, sem bókstaflega ógnar stjórnskipun okkar í grundvelli sínum. Lýðræðislega kjörnir embættismenn fá ekki lengur við ráðið eða framfylgja meðvitað eða hugsunarlaust, fyrirmælum erlendis frá fram hjá reglum lýðveldisins.
Morgunblaðið notar orðið sviksamlegt um þá aðferð að nota þingsályktanir í stað lagasetningar, því þannig má komast hjá ákvæðum stjórnarskrárinnar sem Arnar Jónsson bendir á í sínum skrifum. Arnar Jónsson bendir einnig á það stjórnmálaoffors að
- Gagnrýni var svarað með því að færa athyglina að smáatriðum, með útúrsnúningum eða með beinum rangfærslum."
- Umræðan um málið, bæði í fjölmiðlum og á Alþingi, einkenndist af skoðanahroka, einstrengingshætti og valdboði, m.ö.o af allt öðru en frjálslyndi, sem þó var notað sem skrautfáni þeirra sem mæltu með innleiðingunni."
- Þegar ég svo var kallaður fyrir þingnefnd rann upp fyrir mér að nánast allir flokkar töluðu einni röddu. Málefnalegri gagnrýni var hafnað án viðunandi röksemda. Sjónarmiðum um þróun Evrópuréttar og áhrifaleysi EES-ríkja var svarað út í hött. Enda fór svo að málið var keyrt í gegn."
Þetta er reynsla lagasérfróðs manns sem fenginn var til að segja álit sitt á málinu og þegar afstaða hans hentaði ekki þeim þingmönnum sem vildu orkupakka 3, þá fékk Arnar Jónsson að reyna það sem flestir sjálfstætt hugsandi menn í landinu hafa fengið að reyna í samskiptum við jámenn Evrópusambandsins í verki á Íslandi.
Gagnrýni Morgunblaðsins á Sjálfstæðisflokkinn er sönn. Flokkurinn hefur ýtt til hliðar þeim grundvelli sem gerði hann að burðarstoð íslensks stjórnmálalífs og þróunar Íslands öllum til hagsbóta gegnum tímann.
En núverandi forysta Sjálfstæðisflokksins sem sveik í Icesave skilur ekki stjórnmál á þjóðlegum grunni. Mikilvægara er að viðhalda og efla embættismannakerfið og utanlandsferðir á einskisverða fundi m.a. með embættismönnum ESB. Þegar þessi menning kæfir stjórnarskrána í stofnunum lýðveldisins þarf þjóðin að grípa í taumana.
Ég er genginn í Miðflokkinn sem var eini flokkurinn sem stóð á grundvelli stjórnarskrárinnar varðandi Orkupakka 3 með sárafáum undantekningum, reyndar aðeins einni í þingflokki Sjálfstæðismanna. Arfleifð Icesave baráttu þjóðarinnar er þar að finna og hjá reyndum Sjálfstæðismönnum eins og Davíð Oddssyni.
Þjóðin á mikið verk fyrir höndum að vinda ofan af því skrímsli sem því miður óvandaðir stjórnmálamenn, margir Sjálfstæðismenn og aðrir, hafa unnið hörðum höndum ásamt Vinstri grænum að skapa í embættismannakerfinu á Íslandi.
Skrif Arnar Þórs Jónssonar og ritstjóra Morgunblaðisins ásamt starfi Miðflokksins og þeirra ótal mörgu landsmanna sem vilja bjarga sjálfstæði landsins, gefur birtu á veginn eins og frelsiskyndill í myrkrinu. Það ljós er gott vegarnesti til að hefjast tafarlaust handa.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:43 | Facebook
Athugasemdir
"Morgunblaðið sagði, þegar Orkupakka 3 var laumað gegnum kerfið sem þingsályktun, að hægt hefði verið um vik að heyra álit Hæstaréttar á málinu svo þingið væri öruggt í gjörðum sínum."
Það er hvergi í íslenskum lögum nein leið til að gera þetta.
Guðmundur Ásgeirsson, 18.2.2021 kl. 16:12
Takk Guðmundur fyrir innlit og athugasemd. Já, er það ekki merkilegt á tímum samráðsgátta út um allt að ekki skuli vera form á því að hafa Hæstarétt með í ráðum í málum sem varða stjórnarskrá Íslands og vafamálum tengdum henni? Það er hlutverk Hæstaréttar sem hæstráðandi dómara að skera úr um slík mál hvort sem er. Eða á það að viðgangast að stjórnmálamenn beygi lögin og geri merkingaralaus? Til hvers er þá Hæstiréttur? eða stjórnarskráin? Hér er greinilegt að bæta þarf úr og koma á skeleggari stjórnun til að spyrna við stjórnarskrárafbrotum alþingismanna.
Gústaf Adolf Skúlason, 18.2.2021 kl. 19:48
Hæstiréttur er til þess að skera úr um ágreiningsmál manna á milli samkvæmt gildandi lögum. Ekki að taka afstöðu til einhverra hugmynda um lagasetningu sem hefur ekki (enn) tekið gildi.
Leiðin til að láta reyna á hvort lög standist stjórnarskrá er að sá sem á hagsmuna að gæta af því höfði dómsmál byggt á því að þau geri það ekki. Til þess þurfa þau lög að hafa tekið gildi, því annars væri ekki um neitt stjórnarskrárbrot að ræða. Það hefur verið gert í ótalmörgum tilfellum og í allnokkrum þeirra hefur Hæstiréttur einmitt fallist á slíkar málsástæður. Flest þeirra eru meðal þeirra best þekktu í lögfræðinni enda notuð við kennslu.
Dæmi:
Þá má nefna að nú er fyrir dómstólum mál "Grá hersins" um skerðingar á bótum almannatrygginga vegna annarra tekna, en þar er einmitt byggt á því að skerðingarákvæði almannatryggingalaga brjóti í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrár. Ef þau ákvæði hefðu hins vegar aldrei verið lögfest hefði aldrei neinn orðið fyrir skerðingu og því enginn þurft að höfða mál vegna þess.
Guðmundur Ásgeirsson, 18.2.2021 kl. 21:23
Sæll, takk fyrir þetta, ég skil erfiðleikana fyrir þá sem vilja vinda ofan af þessarri þróun að breyta gerðum samningum og viðbótum við samningana. Þeir fyrirvarar sem gerðir eru um að samningar standist stjórnarskrána og byggja á yfirlýsingum lærðra manna hlýtur að vera hægt að láta á reyna á á einhvern hátt. Ný ríkisstjórn getur tekið upp í EES-nefndinni t.d. að Íslendingar undanskilji sig Orkubandalagi Evrópusambandsins þar sem Ísland er orkuheild án tengsla við meginlandið og því óháður markaður frá ESB. T.d. má byrja með að álykta stefnubreytingu í þingsályktun og síðan breyta með viðbótarlögum við EES-samninginn.
Málið er að eru markmiðin skýr, þá finnast alltaf leiðir svo framarlega að mótaðilinn sýni sanngirni.
En það er kannski til of mikils mælts með sambandi sem byggir á miðstýrðum ríkisbúskap að hætti gömlu Ráðstjórnarríkjanna.
Gústaf Adolf Skúlason, 18.2.2021 kl. 22:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.