Ber er hver að baki nema sér Bjarna Benediktsson eigi
17.10.2017 | 23:56
Fyrst var það Davíð Oddssson. Því næst Geir Haarde. Eftir hann kom Vigdís Hauksdóttir. Þá Hanna Birna og síðan Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sem frægt varð um allar jarðir. Núna er það Bjarni Benediktsson. Þetta er aðeins hluti þeirra nafna sem toppa ísjaka vaskra kvenna og manna sem helgað hafa stjórnmálum krafta sína til farsældar fyrir land vort og þjóð.
Allt síðan fyrsta hreina vinstri stjórnin komst til valda hafa vinstri menn vopnaðir lygakyndlum og töfrapökkum merktum ESB ástundað hömlulausar nornaveiðar til höfuðs lýðræðislega og löglega rétt kjörnum embættismönnum þjóðarinnar. Í slagtogi við Icesave-særða fjármálabraskara hefur hver atrennan á fætur annarri verið gerð að lýðræðis- og stjórnskipun lýðveldisins og þjóðin verið ræst út í nokkur skipti til að stöðva töku glæpafólks á fullveldi, efnahagslífi og sjálfsákvörðunarréttindum þjóðarinnar. Ef við hefðum tapað þeirri orustu væri Ísland í dag Grísland með landsmenn í skuldafjötrum; nútímasaga víkinganna væri gríslenskur harmleikur með meiri harmakveinum en nokkru sinni áður hafa heyrst á þessari jörð.
Þessi barátta er greinilega engan veginn búinn. Þau öfl sem sækjast í auðlindir þjóðarinnar og vilja brjóta á bak aftur sjálfstætt lýðveldið hafast enn að með fulltingi fimmtu herdeildarinnar, trójuhestsins í ríkisfjölmiðlum ásamt keyptum lygalúðrum og ofsækja dag og nótt þá einstaklinga sem við höfum falið að fara með stjórn sameiginlegra mála okkar.
Fremsta markmið þessarra afla er að brjóta á bak aftur þann stjórnmálakraft sem er að finna í þeim flokkum sem komu að stofnun lýðveldisins 1944 á Þingvöllum en eftir stendur Sjálfstæðisflokkurinn einn og svo Miðflokkurinn á rústum Framsóknarflokksins.
Í Icesave voru Íslendingar eins og Sæmundur á selnum sem keyrði Saltarann í haus kölska svo hann sökk en Sæmundur náði landi. Kölski er þó ekki af baki dottinn og við þurfum Saltarann sem aldrei fyrr.
Sjálfstæðisflokkurinn og það sem eftir er af Framsókn - Miðflokkurinn - er Saltarinn okkar.
Keyrum hann í hausinn á þeim kölska sem ásælist fjöregg þjóðarinnar.
Sláum skjaldborg um stjórnmálaleiðtoga okkar og fylgjum málstækinu:
"Ber er hver að baki nema sér Bjarna Benediktsson eigi"
Setur málin í undarlegt samhengi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.10.2017 kl. 00:07 | Facebook
Athugasemdir
Telur þú í einfeldni þinni og ofuraðdáun, að ekkert hafi verið eða sé að athuga við stjórnmálaferil þeirra, sem þu nefnir? Er allt misskilningur, sem gagnrýnendur þessara stjórnmálamanna hafa sett fram?
Sigurður Oddgeirsson, 18.10.2017 kl. 09:53
Sæll Sigurður, þú byrjar á því að reisa múra einfeldis og ofuraðdáunar og stendur það fyrir þína nálgun. Stóra málið eru ekki einstök atriði sem gagnrýna má í fari sérhvers stjórnmálamanns heldur hitt að lýðræðislegt kosningafyrirkomulag okkar er hætt að virka vegna áraása niðurrifsafla á löglega kjörna embættismenn okkar. Verið er að grafa undan lýðveldisskipuninni sem ákveðin var á Þingvöllum 1944 og slíkt ber að stöðva.
Gústaf Adolf Skúlason, 18.10.2017 kl. 10:03
Vinstrið er ekki gefið fyrir málefni.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 18.10.2017 kl. 18:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.