Öryggi íbúannna ábyrgð okkar allra segir bæjarstjóri Sollentuna
14.10.2016 | 03:06
Það líður varla sá dagur í Svíþjóð að ekki séu fregnir af vopnuðum ránum, bílaíkveikjum og skotbardögum þar sem menn særast eða láta lífið fyrir byssukúlum. Ástandið virðist sífellt verða verra og miklar umræður í gangi um hvað hægt er að gera til að berjast gegn glæpafaraldinum.
Stjórnarandstaðan krefst þess að hlúð verði að lögreglunni með auknum fjárlögum, hærri launum til lögreglumanna og fjölgun þeirra í þúsundum talið um alla Svíþjóð. Gríðarlega þung gagnrýni er á lögreglustjórann sem ekki kemur úr röðum lögreglunnar heldur er flokksgæðingur sósíaldemókrata.
Ég var í viðtali í Morgunútvarpi útvarps SÖGU í vikunni og varð hissa, þegar Markús Þórhallsson benti á að ekki tryðu allir Íslendingar því, að frásagnir af glæpaöldu í Svíþjóð væru sannar. Vegna þess ákveð ég að birta hér viðtal við bæjarstjórann í Sollentuna kommun með 70 þúsund íbúum í norðurhluta Stokkhólms en Sollentuna hefur tekið upp það nýmæli að hafa lögreglu staðarins með á fundum bæjarstjórnar.
Henrik Tunes er formaður bæjarstjórnar Sollentuna og hann hefur búið í Sollentuna síðan 1998. Hann er virkur meðlimur hjá Móderötum síðan 1999 og varð formaður bæjarstjórnar fyrir einu ári síðan.
Mirihluti bæjarstjórnar skrifaði harða gagnrýni á lögreglustjórann og um ástandið í Aftonblaðið í sumar. Af hverju?
Það hefur verið órólegt hérna í Sollentuna í sumar, bílaíkveikjur og steinakast en það versta af öllu var, að hér varð skotárás í miðjum bænum, meira að segja hérna fyrir utan sjálft sveitarstjórnarhúsið. Þetta hefur afar neikvæð áhrif og eðlilega skapaði þetta óróa hjá íbúum Sollentuna og margir þeirra höfðu samband við sveitarfélagið. Það er náttúrulega gott að maður hefur samband við sveitarfélagið en það er einnig ágætt að minnast þess, að þegar gróf glæpastarfsemi er stunduð eins og átt hefur sér stað, þá er það fyrst og fremst lögreglumál, annars geta umræðurnar farið út af sporinu. Það er hlutverk lögregluyfirvalda að hindra glæpastarfsemi og vinna fyrirbyggjandi starf, sem sveitarfélagið getur líka gert en okkur fannst lögreglan ekki hafa sinnt sínu hlutverki sem skyldi hérna í sveitarfélaginu, þegar þessir atburðir áttu sér stað. Þess vegna völdu fulltrúar meirihlutans hér að skrifa þessa grein í Aftonbladet.
Hvernig voru viðbrögðin? Fenguð þið einhver viðbrögð frá lögreglunni?
Já, við fengum reyndar svar við greininni frá fulltrúum lögreglunnar og í kjölfarið hittum við tvo fulltrúa lögreglunnar hérna í Sollentuna. Og það var mjög góður fundur, við vorum skýrir með þá óánægju sem fannst um störf lögreglunnar, við lögðum spilin á borðið. Niðurstaða fundarins var að við yrðum að hefja nánara og beint samstarf milli sveitastjórnarinnar og forystu lögreglunnar hérna í Sollentuna. Þetta leiddi til þess skrefs, að lögreglan kemur á mánaðarlega fundi sveitarstjórnarinnar og gefur skýrslu um hvernig ástandið er í Sollentuna varðandi glæpi. Lögreglan getur ekki sagt frá öllu, því þeir eru bundnir þagnarskyldu en þeir geta gefið okkur greinargóðar upplýsingar og svarað spurningum okkar. Allir vita að stjórnmálamenn geta talað mikið en lögreglan fær 10 mínútur á hverjum fundi, þar sem 5 mínútur fara í skýrslu um ástandið og 5 mínútur til að svara spurningum. Allir flokkar eru viðstaddir og fá upplýsingar lögreglunnar og allir geta spurt lögregluna um hvað hún sé að gera.
Hvaða áætlanir hafið þið með lögreglunni í nánustu framtíð?
Sveitarfélagið hefur sína ábyrgð og lögreglan sína. Hjá okkur vinnum við stöðugt með öryggisspurningar og margt er í gangi. Fyrir ári síðan samþykkti sveitarstjórnin sérstaka stefnu varðandi öryggi íbúanna, þar sem ákveðið var hvernig unnið er að öryggismálum alls staðar í sveitarfélaginu. Að fyrirbyggja glæpi er langtímaverkefni hjá okkur og einnig sköpum við örugg útivistarsvæði og vinnum að félagslegri haldbærni gegn glæpastarfsemi. Þannig eru öryggismálin með frá byrjun við skipulag íbúðahverfa með upplýsum útisvæðum. Og skólinn hefur afar þýðingarmikið hlutverk hér, börnum er kennt þegar í forskólanum að bera virðingu hvert fyrir öðru. Húmaníski þátturinn er geysilega þýðingarmikill, að börnum sé kennt að þróa með sér skilning og hugsun hvert fyrir öðru og skilja hvert annað. Mér finnst mikilvægt að benda á þennan þátt. Síðan er þáttur foreldranna ekki síðri og við frá sveitarstjórninni segjum gjarnan að þetta séu svo þýðingarmikil mál, að það er ekki bara hægt að leggja það á herðar eins aðila að tryggja öryggið heldur verðum við öll að hjálpast að til að ná sem bestum árangri. Það eru líka í gangi alls konar hlutir á mörgum stöðum með mörgum aðilum t.d. frjáls framtök fólks eins og Næturfararnir, Tryggt og fallegt, Svæðisstarfsmennirnir. Við komum þar inn og samhæfum starfið svo allir þekki til hvers annars og vinnan verði meira samhæfð. Hérna er hægt að betrumbæta starfið og þróa það enn frekar áfram.
Sollentuna hefur 70 þúsund íbúa og er eitt af 290 sveitarfélögum Svíþjóðar. Hvernig lítur dæmið út ef lögreglan fær ekki aðstoð ríkisstjórnarinnar, getið þið unnið saman með öðrum sveitarfélögum að öryggismálunum?
Lögreglan og við vinnum með Upplands Vesby og Sigtuna. Lögreglan hefur upplýst okkur um það, að vegna róstra í Upplands Vesby í sumar, þá hafði hún minni möguleika til að sinna skyldu sinni í Sollentuna. Án þess að fara inn á landssviðið, þar sem mitt hlutverk snýr að Sollentuna, þá gerum við þær kröfur til lögreglunnar, að hún sé nægjanlega útbúin til að geta sinnt starfi sínu hérna í Sollentuna, alla daga ársins í öllum hlutum Sollentuna. Ef lögreglan segist ekki vera nægjanlega útbúin til að tryggja öryggi íbúa Sollentuna, þá verður hún að krefjast þess af ríkinu að henni verði gert kleift að sinna starfi sínu. Það er ekki hlutverk mitt að stjórna því en flokkur minn Móderatarnir hefur sett fram þá stefnu að meiri fjárlög verði veitt til lögreglunnar og að verulega verði fjölgað lögreglumönnum einmitt til að lögreglan geti tekist á við hlutverk sitt. Þessar spurningar koma að sjálfsögðu upp á fundum okkar með lögreglunni og við vitum að lögreglan reynir að fá lausa meiri peninga til að geta gegnt starfi sínu hér hjá okkur en þetta er ekki alltaf svo einfalt mál.
Ég þakka þér kærlega fyrir að koma í þetta viðtal hjá útvarpi Sögu, - það hafa verið svo slæmar fréttir frá Svíþjóð að fólk á Íslandi er farið að spyrja sig, hvað í ósköpunum sé í gangi í Svíþjóð. Þú hefur komið til Íslands?
Já ég hef þrisvar sinnum komið til Íslands. Pabbi minn er frá Noregi og ég dáist að norskri náttúru og þegar ég kom til Íslands fannst mér margt minna á Noreg, sem mér finnst svo fallegt, brattar fjallshlíðar og villt náttúra. Í fyrstu heimsókn minni til Íslands sá ég Gullfoss og heitu laugarnar og alla þessa ástríðufullu náttúru sem okkur vantar svo mjög hér í Svíþjóð. Það er fínt hér í Svíþjóð en það vantar ástríðuna, mér finnst það meira spennandi þannig. Það var ótrúlega fínt að heimsækja Ísland, ég tók fullt af myndum af Þingvöllum og tók með heim til að sýna fjölskyldunni hversu falleg náttúran væri á Íslandi, því mig langar að koma aftur og hafa alla fjölskylduna með, fara á hestbak, því í útreiðatúr verður maður að fara á Íslandi.
Viltu segja eitthvað að lokum til hlustenda útvarps SÖGU?
Mér finnst það mjög gott að þið viljið ræða öryggismálin og að íbúarnir geti verið tryggir. Þetta er grundvöllurinn í lýðræðisþjóðfélaginu og réttarsamfélaginu, að hægt sé að treysta á það að maður sé öruggur þegar maður fer út úr húsinu og að hægt sé að gera það allan sólarhringinn. Ég mun aldrei gefa eftir þessi sjónarmið, sem eru meðal mikilvægustu málefna samfélagsins svo að við getum verið trygg með öðru fólki á opinberum svæðum.
Flokkur: Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 09:48 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.