Fáir verðugri fulltrúar Íslands en Geir Haarde

geir_haarde_avarp_051009

Ég fagna þeirri ákvörðun að skipa Geir Haarde fyrrverandi forsætisráðherra í embætti sendiherra Íslands frá og með næstu áramótum. Það er skref í rétta átt til að bæta Geir Haarde fyrir þær persónulegu ofsóknir sem hann varð að þola af hálfu óvinveittrar ríkisstjórnar vinstri manna, sem ræstu í gang Landsdóm til að klekkja á stórnmálaandstæðingum sínum. 

Enginn gjörningur mun bæta Geir Haarde þann álitshnekki erlendis og þá vonlausu stöðu, sem maðurinn var settur í með fjölmiðlaumfjöllun um Landsdóm út um heim allan. Var fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins fyrirfram dæmdur glæpamaður sem orsakaði landsmönnum bæði bankahruni og annarri óáran í alþjóðafjölmiðlum. Þegar dómurinn var loksins kveðinn, sem frýjaði Geir Haarde á öllum punktum nema einum yfirskinspunkti um vanrækslu við fundargerð, var það þegar um seinan og náði engan veginn að koma í veg fyrir skaðann af álitshnekki á röngum forsendum. Það eru gömul sannindi að tólf sinnum stærra átak þarf til að leiðrétta ranga ímynd en að skapa hana.

Með því að skipa Geir Haarde í stöðu sendiherra sendir Ísland þau skilaboð til umheimsins, að málaferlin gegn Geir voru röng og það aðstoðar hann við að fá uppreisn æru. Ég vona, að Mannréttindadómstóll Evrópu veiti Geir Haarde að lokum fullkomna uppreisn æru sem um leið verður svartur blettur í sögu Íslands fyrir að hafa brotið mannréttindi á farsælum stjórnmálamanni. Mun það í ofanálag þýða skaðabótakröfur og greiðsluskyldu íslenska ríkisins sem alfarið skrifast á reikning Samfylkingarmanna og Vinstri grænna. 

Íslendingar ættu að safnast á bak við ákvörðun um að veita Geir Haarde, Davíð Oddssyni og Ólafi Ragnari Grímssyni stærstu viðurkenningu lýðveldisins fyrir að hafa staðið vaktina á erfiðum tíma og með neyðarlögum og neitun undirskriftar á Icesave bjargað Íslandi frá gjaldþroti. Þessir einstaklingar hafa staðið í fremstu víglínu nútíma frelsis- og sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.

 


mbl.is Geir Haarde sendiherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Það hefur verið alveg stórmerkilegt að lesa bloggin hjá vinstri öfgamönnunum, um þá frétt að Geir Haarde og Árni Þór hafi verið skipaðir sendiherrar.   Þeir ná ekki upp í nefið á sér yfir vandlætingu vegna skipunar Geirs Haarde en þeir minnast ekki á Árna Þór Sigurðsson, sem ekkert hefur annað gert í heilt kjörtímabil en að vera "gólftuska" Össurar Skarphéðinssonar og svíkja helstu kosningaloforð VG (WC)....................

Jóhann Elíasson, 31.7.2014 kl. 14:19

2 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

Takk Jóhann, þetta fólk virðist vera í eilífðarleit að blórabögglum til að afsaka fyrir sjálfu sér að skauta fram hjá sjálfstæðri hugsun, sannkallað blórabögglabandalag. Sér í lagi er ráðist á fulltrúa Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna en Hókus Pókus StikkFrí-hulan dregin yfir fulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna. Staðreyndir eru huldar með heilaþvotti sem minnir meira á sértrúarsöfnuð en málefnaumræður mismunandi stjórnmálaskoðana.

Gústaf Adolf Skúlason, 31.7.2014 kl. 14:34

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Minnir á sértrúarsöfnuð! Svo stundum á listaverkið sem var gert sem barnamynd; Lyon King. Hvað ég þurfti oft að skýra út fyrir stálpaðri börnum hvað flærð er,Skari (öfundsjúka,siðlausa,ljónið)- á sér örugglega og því miður fyrirmyndir,ég sá og heyrði þær svo oft,þær finnast ekki bara út í heimi.

Helga Kristjánsdóttir, 1.8.2014 kl. 00:54

4 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

Takk Helga, það er ekki einfalt mál að útskýra staðreyndir fyrir fólki, sem samþykkir ekki almennar viðmiðunarreglur. Oft byggist þetta á hræðslu við að taka á málunum.

Gústaf Adolf Skúlason, 1.8.2014 kl. 07:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband