Sjálfstæðismenn í Vestmannaeyjum uppskera árangur af beinum samskiptum við almenning

vestmannaeyjar

Sjálfstæðisstefnan nýtur algjörs trausts í Vestmannaeyjum. Dugnaður sjálfstæðismanna í Eyjum undir forystu Elliða Vignissonar er til fyrirmyndar og einstakt fordæmi fyrir allt landið.

T.d. sagði Elliði í viðtali við Mbl. að ung kynslóð sjálfstæðismanna hefði séð um samskipti flokksins við æsku Vestmannaeyinga sem hefði skilað góðum árangri. Þetta er annað ástand en hjá Sjálfstæðismönnum í Reykjavík, þar sem kosningaþáttaka er í sögulegu lágmarki og unga fólkið sem kaus virðist frekar hafa kosið aðra flokka en Sjálfstæðisflokkinn.

Samhugur Vestmannaeyja að starfa saman að sameiginlegum málefnum íbúanna sýnir hvaða hljómgrunn sjálfstæðistefnan fær, þegar hún er mótuð í beinu samstarfi við íbúana. Sjálfstæðisstefnan er farsælust allra stefna, þegar hún er útfærð á lýðræðislegum grundvelli með þáttöku almennings. En til þess að slík útfærsla sé möguleg þarf forystan að hafa það að markmiði að vinna að sigri sjálfstæðisstefnunnar. Jafnframt verður forystan að skapa og vinna samkvæmt áætlun um að þróa sjálfstæðisstefnuna áfram í beinum samskiptum/viðtölum við almenning. 

Því miður hefur Sjálfstæðisflokkurinn sem flokkur ekki náð sér á strik eftir samstarfið með Samfylkingunni í ríkisstjórn Geirs Haarde. Sá undirlægjuháttur sem Sjálfstæðisflokkurinn sýnir Samfylkingarmönnum eftir allt sem á undan er gengið sýnir hversu djúp samtenging andstæðra stjórnmálaafla eru á bak við tjöldin. Það vekur eðlilega spurningar um spillingu - bæði stjórnmálalega og fjárhagslega. Það var gjörsamlega ótrúverðugt og í reynd fáranlegt að heyra oddvita sjálfstæðismanna í Reykjavík gera hosur sínar grænar við Samfylkinguna í Reykjavík sem er að mynda vinstri stjórn í Reykjavík. Þetta kemur út eins og Halldór Halldórsson sé í örvæntingu að reyna að næla sér í sæti í borgarstjórn og sjálfstæðisstefnan situr á hakanum.

Samræðustefna sjálfstæðismanna við stjórnarandstæðinga er mikill misskilningur og ekki að undra að kjósendur snúi baki við slíku. Það sem landsmenn þyrstir að fá er leiðsögn sjálfstæðisstefnunnar hjá ábyrgum leiðtogum sem skilja að stefnan nær skemur ef hún er ekki mótuð í náinni samvinnu við landsmenn sjálfa. Hér hefur Sjálfstæðisflokkurinn mikið verk að vinna að heimsækja fólk og spjalla um sjálfstæðisstefnuna og safna inn hugmyndum landsmanna um stjórnarfar landsins. Aðeins þannig tekst að skapa þá nýju sjálfstæðisstefnu sem er útfærð við þær nýju aðstæður sem ráða í íslensku samfélagi. Sjálfstæðisflokkurinn þarf að gera áætlun um skipulagða endurnýjun sjálfstæðisstefnunnar með fókus á Reykjavík og markmiðið að endurheimta fyrri stöðu sem stærsti flokkur borgarbúa. 

Þetta starf er mögulegt. Þetta starf er þarft. Þetta starf getur skipt sköpum fyrir framtíð Sjálfstæðisflokksins og landsmanna. 


mbl.is Hlutverk okkar að standa með íbúunum í baráttunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Gústaf, það er vert að minnast á það að það er annað bæjarfélag, Akranes þar sem Sjálfstæðisflokkurinn vann yfirburðasigur undir forystu Ólafs Adolfssonar, þar er á ferðinni maður sem sem eins og Elliði Vignisson lætur ekki beygja sig fyrir lögleysu og óréttlæti.

Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 2.6.2014 kl. 11:48

2 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

Sæll Kristján, alveg rétt og eitthvað gerir hann sem er mjög rétt og gæti hjálpað í öðrum sveitarfélögum. Ég tók Vestmannaeyjar sem dæmi, því þeir eru Íslandsmeistarar á gullverðlaunapallinum! Það rýrir á engan hátt neina aðra duglega einstaklinga sem vinna sjálfstæðisstefnunni framgang. Málið er að sjálfstæðismenn í höfuðborginni þurfa að koma málunum í betri gír.

Gústaf Adolf Skúlason, 2.6.2014 kl. 12:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband