Færsluflokkur: Íþróttir
Stórkostlegur árangur Íslands
27.6.2018 | 07:47
Það er full ástæða til að þakka okkar frábæru knattspyrnumönnum fyrir drengilega baráttu. Þeir hafa skrifað fótboltasögu á heimsvísu með því einu að bera þjóðina fram til leiks á HM.
Leikur þeirra við Króatíu í gær sýndi, að liðið er á heimsmælikvarða og fyllilega sambærilegt við bestu knattspyrnuþjóðir heims. Sænskir íþróttafréttamenn juku lofsorðum á Ísland og allir vilja taka þátt í árangri liðsins sbr. grein Ann Linde Evrópuráðherra Svíþjóðar í Mbl. í dag, þar sem hún bendir á þá staðreynd að "níu liðsmenn landliðsins hafa spilað í Svíþjóð og velgengni liðsins einnig fagnaðarefni fyrir okkur Svía".
Sú tilfinningalega sameining sem landsliðið hefur skapað er tákn fyrir vilja lítillar þjóðar að láta hvorki fjármálahrun, eldgos eða aðra óáran hindra sig frá því að lifa af allar hörmungar. Barátta liðsins er tákn um þennan ótrúlega styrk þjóðarinnar og ekki annað hægt en að gleðjast yfir árangrinum og finna til stolts sem Íslendingur.
Að þessu leyti eru knattspyrnumennirnir miklu meiri hetjur og rísa hærra yfir öll dægurmál en flestum stjórnmálamönnum tekst nokkru sinni að gera.
Stjórnmálin hafa mikið að læra af íþróttunum.
Ísland úr leik á HM | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 07:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)