Færsluflokkur: Stjórnlagaþing

Heldur Jóhanna, að hún sé dóttir sama Sigurðar og Jón?

Sífellt verður undarlegra að fylgjast með stjórnarskrármálinu. Evrópuvaktin skýrir frá því 26. október, að

"Ekki liggur fyrir nein stefna hjá forsætisráðherra eða ríkisstjórninni um hvaða breytingar gera þurfi á stjórnarskránni fyrir eða í kjölfar hugsanlegrar inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Þetta kemur fram í skriflegu svari Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra við fyrirspurn frá Atla Gíslasyni alþingismanni sem lagt var fram á þingi fimmtudaginn 25. október, fimm dögum eftir að ríkisstjórnin lagði fyrir þjóðina spurningar í skoðanakönnun um afstöðu til nýrrar stjórnarskrár."

Enn fremur segir í grein Evrópuvaktarinnar:

"Í svari forsætisráðherra segir að ESB-aðildarviðræðurnar feli í sér „ítarlega skoðun allra málaflokka og íslenskrar löggjafar í samanburði við löggjöf og regluverk Evrópusambandsins“. Til ráðgjafar og stuðnings í viðræðunum starfi sérstakur hópur um lagaleg málefni. Björg Thorarensen, lagaprófessor við Háskóla Íslands, er formaður hópsins og jafnframt einn varaformanna viðræðunefndar Íslands við ESB."

Hópurinn kom síðast saman 9. janúar í ár.  

TEATERSYMBOL_flash0

Engu er líkara en ríkisstjórnin og Jóhanna Sigurðardóttir séu að leika hlutverk í leikriti um arftaka Jóns Sigurðarsonar í sjálfstæðisbaráttu Íslands. Vandamálið er bara að ef aðildarferlið að ESB, sem er í fullum gangi, er tekið út úr myndinni, þá vantar grundvöll sjálfstæðisbaráttunnar. Þetta leikrit er greinilega samið af sama leikritahöfundi og "kíkja í pakkann" leikritið.

Þá sagði ríkisstjórnin:

"Nei, nei, sei, sei, nei. Við erum sko EKKI að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Við erum bara að kíkja í pakkann, og fá að vita hvað það felur í sér að sækja um áður en við ákveðum, hvort við ætlum að sækja um."

Allir vita, hvað þetta þýddi. Ísland sendi inn umsókn um aðild að ESB og er í bullandi aðlögun að kröfum ESB, sem ríkin þurfa að uppfylla til að geta orðið meðlimir. Breytingar á stjórnarráðinu, - þar á meðal niðurlegging sjávarútvegsráðurneytisins - eru dæmi um aðlögunina, þótt hagfræðiprófessorinn, formaður Stjórnlagaráðs, sem kom í stað hins ólöglega Stjórnlagaþings, kalli það "nafnabreytingu".

Núna segir ríkisstjórnin:

"Nei, nei, sei, sei, nei. Við erum sko EKKI að aðlaga stjórnarskrána að Evrópusambandinu. Við erum bara að búa til nýja fullveldisfullkomnari stjórnarskrá áður en við kíkjum á breytingar vegna hugsanlegrar ESB-aðildar."

Það er ekki erfitt að skilja, hvað það þýðir. Það er verið að þvinga nýrri stjórnarskrá gegnum þingið, með ákvæðum sem aðlaga stjórnskipun landsins að kröfum ESB og fleygja burtu núverandi stjórnarskrá, sjálfum grundvelli lýðveldisins, sem samþykkt var við stofnun Lýðveldis Íslands 1944.

Nýja leikritið, sem er framhald "kíkja í pakkans" leikritsins gæti þess vegna haft titilinn: Sjálfstæðisbarátta Jóhönnu Sigurðardóttur.

Það passar eitthvað svo vel við lýsingu hennar á sjálfri sér í tilkynningu um frumvarpið á Alþingi 23. október. Frelsis- og lýðræðisandi Jóhönnu Sigurðardóttur var slíkur í ræðustólnum, að hvergi glytti í Jón sjálfan nema þegar Jóhanna einu sinni nefndi nafn hans. Líklega verður að umskrifa alla sögu sjálfstæðisbaráttu Íslendinga eftir þessa neistafullu ræðu forsætisráðherrans, því aldrei hefur sjálfstæðisbarátta Íslendinga fengið þvílíka uppskeru og nýja stjórnarskrárfrumvarpið.

Það læðist að manni sá grunur að þingmeirihlutinn láti taka niður styttuna af Jóni Sigurðssyni og reisa nýja af Jóhönnu Sigurðardóttur í hans stað eða þá að Jón fái að standa við hliðina á fimm sinnum stærri Jóhönnu. Þau eru bæði sonur og dóttir Sigurðar, ekki sama mannsins en alla vega sama mannsnafnsins, sem sparar að sjálfsögðu allar nafnabreytingar.

Þar skyldi þó ekki vera kominn fram hinn frægi Sigurður Dýrafirðingur, sjálfur skapari sjálfstæðisbaráttu Íslendinga?


Hver bað um nýja stjórnarskrá frú Jóhanna "Trampe" Sigurðardóttir?

Af 3306 meiningum þjóðfundar 2010 finnst engin meining, þar sem farið er fram á nýja stjórnarskrá.

Það er þess vegna helber ósannindi og söguleg fölsun að klína tillögum Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá við hugmyndir og ávarp Jóns Sigurðssonar á þjóðfundi í Lærða skólanum árið 1851, eins og Jóhanna Sigurðardóttir gerði á Alþingi í dag.

Það frumvarp að nýrri stjórnarskrá, sem tekið var fyrir á þjóðfundinum 1851, var frumvarp Danakonungs skrifað af Bardenfleths ráðherra er kallað var Frumvarp til laga um stöðu Íslands í fyrirkomulagi ríkisins og um ríkisþingskosningar á Íslandi. Íslendingar risu upp gegn þeim skilningi á stöðu Íslands, sem fram kom í frumvarpinu og lýsti Íslandi sem amt í Danmerkurríki.

Þessu frumvarpi ruglar forsætisráðherra Íslands saman við tillögur Stjórnlagaráðs í írafári sínu að íklæða sig sjálfstæðisbaráttu Íslendinga.  

Skärmavbild 2012-10-24 kl. 00.03.39

Stiftamtmaður og konungsfulltrúinn Trampe kvað öllum óheimilt að fara út fyrir þann grundvöll, sem frumvarpið væri á reist en grundvöllurinn væri sá, að Ísland væri hluti Danmerkurríkis og giltu dönsku grundvallarlögin um það ríki allt. 

Um þjóðfundinn má lesa í Lesbók Morgunblaðsins 22. júlí 1951

Fyrst verið er að líkja atburðum á Íslandi ár 2012 við 1851 væri réttara að kalla tillögur Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá fyrir Baredenfleths stjórnarskrána og Jóhönnu fyrir Frú Trampe, sem hvort eð er kveður öllum Íslendingum óheimilt að fara út fyrir þann grundvöll, að Ísland verði amt í ESB og grundvallarlög ESB gildi fyrir Ísland allt.

Danski konungurinn óttaðist uppreisn hinna sjálfstæðu Íslendinga og sendi tillögur að nýrri stjórnarskrá til Íslands með herskipi í fylgd hermanna.

Til að fullkomna vitleysuna ætti því forsætisráðherrann að koma til Reykjavíkur á herskipinu The Eurogendfor með tillögur Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá í hlutverki frú Trampe.

VÉR MÓTMÆLUM ALLIR!

 


mbl.is Flokkadrættir og klækir víki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin pantaði stjórnarskrá til að uppfylla "acquis" kröfur ESB

Mikið liggur ríkisstjórninni á að keyra núverandi tillögum Stjórnlagaráðs gegnum þingið, sem þjóðinni var sagt að væru "ráðgefandi" en núna eru "bindandi." Icesave-vinnubrögðin sjást greinilega, hraða á öllu í gegnum þingið án þess að fagaðilar í samfélaginu fái að vinna störf sín. Lögmenn fengnir til starfa en fá ekki að segja sína meiningu á innihaldi pakkans. Fagmennsku breytt í umbúðir. Allt eftir því, sem tíðin líður og fleiri fagaðilar fá að segja sitt álit, koma ný atriði í ljós, sem eru röng og þarf að lagfæra.

bilde

Þannig sagði einn virtasti lögmaður Íslands, lagaprófessor og emeritus Sigurður Líndal í stuttri og kjarnyrtri grein í Fréttablaðinu s.l. sunnudag undir yfirskriftinni Merkingarlaus þjóðaratkvæðagreiðsla:

"Um hvað snerist þá þessi atkvæðagreiðsla? Um ófullburða plagg sem fullyrða má að landsmenn höfðu afar óljósa hugmynd um, hvað fæli í sér. Tæpitungulaust snerist atkvæðagreiðslan því ekki um neitt. Hér er unnið í anda sýndarlýðræðis sem er vísastur vegur til að rækta jarðveg fyrir pólitíska spillingu, þannig að hún verði stunduð í skjóli teygjanlegs lýðræðilegs umboðs sem túlka megi á hvaða veg sem er og réttlæta hvað sem er."

Stjórnarskrá Stjórnlagaráðs er pöntuð af ríkisstjórninni til að aðlaga innihaldið, þ.e. stjórnskipan lýðveldisins Íslands að ESB og þjóðin blekkt með fullyrðingum um að komið sé til móts við óskir hennar um aukið lýðræði og sjálfstætt, fullvalda Ísland. Myrkrarverk ríkisstjórnarinnar þola náttúrulega ekki dagsbirtu og því á að keyra málið í gegn á ógurhraða.

Ríkisstjórnin hefur keyrt niður virðinu Alþingis í botn lákúrunnar með vinnubrögðum sínum. Hún hefur einungis haft tvö markmið:

1. Skaða Sjálfstæðisflokkinn eins mikið og hægt er

2. Troða þjóðinni inn í ESB

Stjórnarandstaðan verður að halda vörnum fyrir stjórnarskrá lýðveldisins og hrinda þessari árás. 

Gústaf Adolf Skúlason


mbl.is Skili frumvarpinu sem fyrst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frumkvæði þjóðfundar 2010 breytt í aðlögun Íslands að ESB

Ekki er víst miðað við þær almennu spurningar, sem fólk var beðið að svara í gær, að allir sem svöruðu já við spurningunni um að leggja tillögur Stjórnlagaráðs til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá Íslands geri sér grein fyrir því, hvað felst í tillögunum. Spurningarnar virka í lýðræðisanda en ráðið skerðir aðkomu almennings að stjórnun landsins: skerðing þjóðaratkvæðisréttar, 5/6 einveldi þingmanna við breytingar á stjórnarskrá og vald þings að afsala fullveldi Íslands til erlendra ríkja.

Allir vita, að þrýstingur ríkisstjórnarinnar um að koma þessu máli í gegn fyrir næstu alþingiskosningar er að það er hennar eina mál að koma Íslandi inn í ESB. Það gerir stjórnlagaráðsmenn og ríkisstjórn hláleg, að þau halda öðru fram enda er stjórnarstíllinn sóttur til ESB. 

Allt fram á síðustu daga fyrir atkvæðagreiðsluna voru sérfræðihópar eins og Lögmannafélag Íslands að senda frá sér umsagnir. Þá hafa þingmenn í skertu málfrelsi tveimur dögum fyrir kosningar bent á fjölmörg veigamikil atriði, sem hvorki ríkisstjórnin né stjórnalagaráðsmenn sjálfir vilja fara hátt með.

Ég kastaði auga á umsögn LMFÍ og verð að játa að mér brá töluvert við lesturinn. LMFÍ gerir efnislegar athugasemdir í yfir 30 liðum og kemst að þeirri niðurstöðu, að "Laganefnd getur því ekki mælt með því að tillögur Stjórnlagaráðs verði samþykktar í óbreyttri mynd." Þetta er að sjálfsögðu algjör skellur fyrir tillögur hagfræðiprófessorsins og ríkisstjórnina, sem ætlar að leggja fram tillögur ráðsins sem frumvarp á Alþingi.  

Ég tek fáein dæmi:

  • eignarréttarvernd verður veikari en í núverandi stjórnarskrá
  • vernd gegn kaupum erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtæki fellur brott
  • dregið úr vernd almennings gegn afturvirkri eignaskerðingu í formi skatta
  • Félagsdómur einn sérdómstóla nýtur verndar stjórnarskrár
  • dregið úr sjálfstæði dómara
  • 5/6 hlutar þingmanna geta breytt stjórnarskrá
  • fjölmörg ákvæði þarfnast skýringar og boða réttarfarslega óvissu

Leikurinn með tillögur stjórnlagaráðs og ráðið sjálft er vondur leikur, þar sem verið er að láta líta svo út, að hugmyndir þjóðfundarins 2010 séu lagðar til grundvallar að nýrri stjórnarskrá. Einungis hverfandi hluti fulltrúa þjóðfundar óskaði eftir inngöngu í ESB. Framtíðarsýn fundarins var, að Ísland skuli áfram vera fullvalda þjóð og sjálfstæð með óskertan sjálfsákvörðunarrétt. 

Tillögur Stjórnlagaráðs miðast við að taka burtu þær "hindranir", sem stjórnarskrá lýðveldisins eru í götu ESB-aðildar. Verði þær samþykktar fellur árangurinn af stofnun lýðveldisins.

Sigur stjórnlagaráðs í kosningunum í gær er því sigur blekkingarinnar og áróðursmeistaranna yfir lýðræðinu og sjálfstæði þjóðarinnar.

Ísland hefur færst einu skrefi nær innlimun í Evrópusambandið.  

Gústaf Adolf Skúlason 


"Lýðræðisveisla" stjórnlagaráðs - snaran eða fallöxin

Nú rennur upp fallegur dagur fyrir það, sem stjórnlagaráð kallar "lýðræðisveislu". Líkja má veislukostum við skoðunarferð þjóðarinnar á aftökupall og þegar þangað er komið gerir ríkisstjórnin mönnum ljóst, að leiðin tilbaka er gegnum snöruna eða fallöxina.

Þrátt fyrir allt lýðræðisblaðrið og fagurgalann hefur meiningin aldrei verið önnur en að afnema fullveldisákvæði stjórnarskrárinnar okkar til að landsölufólkið í Samfylkingunni og Vinstri grænum geti bolað Íslandi inn í ESB. Þannig var t.d. þegar ákveðið í lögum um stjórnlagaþing í júní 2010 3.gr 6. og 7. lið að þingið skyldi sérstaklega taka fyrir fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu og framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana. Ríkisstjórnin hefur og fengið hrós framkvæmdastjórnar ESB fyrir breytingartillögur ráðsins um afnám fullveldisákvæða núverandi stjórnarskrár.

Þegar kosningar til stjórnlagaþings voru dæmdar ólöglegar, skákaði ríkisstjórnin Hæstarétti og sjálfri stjórnarskránni með stofnun stjórnlagaráðs með forgangsréttindum umfram Alþingi. Störfum nefndarinnar hefur verið haldið utanvið löglega kjörna þingmenn og þjóðin situr uppi með ríkisstjórn, sem brýtur ákvæði stjórnarskrár og niðurstöður Hæstaréttar. Þessi leið var að sjálfsögðu valin til að tefja ekki mikilvæga skerðingu fullveldisins með viðkomu löglegra embættismanna þjóðarinnar. Sama hver útkoma dagsins í dag verður, forsætisráðherrann hefur lofað landsmönnum, að nauðsynlegar breytingar munu ganga fram, hvað svo sem þjóðin og þingið segir. 

Ég hlustaði á útvarpsþátt með "formanninum" Þorvaldi Gylfasyni, ásamt þremur öðrum ráðsmönnum og aðra eins sjálfsaðdáunarmunnræpu hef ég aldrei heyrt áður. Þetta fólk hefur gengist svo upp í "valdahlutverki" sínu vegna tilskipunar ráðherra, að þau trúa því, að þau ein hafi vit fyrir þjóðinni. Klárt mál að þau tala fyrir þá peninga, sem þeim hefur verið borgað í laun fyrir að vera í hlutverki aftökusveitar stjórnarskrárinnar. Þegar á aftökupallinn er komið er þjóðinni sagt, að hún fái vængi með því annað hvort að setja snöruna um hálsinn eða leggja höfuðið undir fallöxina.

Það er skiljanlegt að búrókratarnir brosi í Brussel. Forðabúrið þeirra bíður eftir áfyllingu frá Íslandsmiðum.

Dagurinn í dag er fallegur dagur. Góður dagur til að segja já við fullveldið okkar og stjórnarskrána og nei við tillögum uppblásinna, veruleikafirrtra einstaklinga, sem selt hafa sálu sína ódýrt í von um feitan bitling í Brussel.

Gústaf Adolf Skúlason 


mbl.is Kosningaveðrið: Víða léttskýjað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband