Heldur Jóhanna, að hún sé dóttir sama Sigurðar og Jón?

Sífellt verður undarlegra að fylgjast með stjórnarskrármálinu. Evrópuvaktin skýrir frá því 26. október, að

"Ekki liggur fyrir nein stefna hjá forsætisráðherra eða ríkisstjórninni um hvaða breytingar gera þurfi á stjórnarskránni fyrir eða í kjölfar hugsanlegrar inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Þetta kemur fram í skriflegu svari Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra við fyrirspurn frá Atla Gíslasyni alþingismanni sem lagt var fram á þingi fimmtudaginn 25. október, fimm dögum eftir að ríkisstjórnin lagði fyrir þjóðina spurningar í skoðanakönnun um afstöðu til nýrrar stjórnarskrár."

Enn fremur segir í grein Evrópuvaktarinnar:

"Í svari forsætisráðherra segir að ESB-aðildarviðræðurnar feli í sér „ítarlega skoðun allra málaflokka og íslenskrar löggjafar í samanburði við löggjöf og regluverk Evrópusambandsins“. Til ráðgjafar og stuðnings í viðræðunum starfi sérstakur hópur um lagaleg málefni. Björg Thorarensen, lagaprófessor við Háskóla Íslands, er formaður hópsins og jafnframt einn varaformanna viðræðunefndar Íslands við ESB."

Hópurinn kom síðast saman 9. janúar í ár.  

TEATERSYMBOL_flash0

Engu er líkara en ríkisstjórnin og Jóhanna Sigurðardóttir séu að leika hlutverk í leikriti um arftaka Jóns Sigurðarsonar í sjálfstæðisbaráttu Íslands. Vandamálið er bara að ef aðildarferlið að ESB, sem er í fullum gangi, er tekið út úr myndinni, þá vantar grundvöll sjálfstæðisbaráttunnar. Þetta leikrit er greinilega samið af sama leikritahöfundi og "kíkja í pakkann" leikritið.

Þá sagði ríkisstjórnin:

"Nei, nei, sei, sei, nei. Við erum sko EKKI að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Við erum bara að kíkja í pakkann, og fá að vita hvað það felur í sér að sækja um áður en við ákveðum, hvort við ætlum að sækja um."

Allir vita, hvað þetta þýddi. Ísland sendi inn umsókn um aðild að ESB og er í bullandi aðlögun að kröfum ESB, sem ríkin þurfa að uppfylla til að geta orðið meðlimir. Breytingar á stjórnarráðinu, - þar á meðal niðurlegging sjávarútvegsráðurneytisins - eru dæmi um aðlögunina, þótt hagfræðiprófessorinn, formaður Stjórnlagaráðs, sem kom í stað hins ólöglega Stjórnlagaþings, kalli það "nafnabreytingu".

Núna segir ríkisstjórnin:

"Nei, nei, sei, sei, nei. Við erum sko EKKI að aðlaga stjórnarskrána að Evrópusambandinu. Við erum bara að búa til nýja fullveldisfullkomnari stjórnarskrá áður en við kíkjum á breytingar vegna hugsanlegrar ESB-aðildar."

Það er ekki erfitt að skilja, hvað það þýðir. Það er verið að þvinga nýrri stjórnarskrá gegnum þingið, með ákvæðum sem aðlaga stjórnskipun landsins að kröfum ESB og fleygja burtu núverandi stjórnarskrá, sjálfum grundvelli lýðveldisins, sem samþykkt var við stofnun Lýðveldis Íslands 1944.

Nýja leikritið, sem er framhald "kíkja í pakkans" leikritsins gæti þess vegna haft titilinn: Sjálfstæðisbarátta Jóhönnu Sigurðardóttur.

Það passar eitthvað svo vel við lýsingu hennar á sjálfri sér í tilkynningu um frumvarpið á Alþingi 23. október. Frelsis- og lýðræðisandi Jóhönnu Sigurðardóttur var slíkur í ræðustólnum, að hvergi glytti í Jón sjálfan nema þegar Jóhanna einu sinni nefndi nafn hans. Líklega verður að umskrifa alla sögu sjálfstæðisbaráttu Íslendinga eftir þessa neistafullu ræðu forsætisráðherrans, því aldrei hefur sjálfstæðisbarátta Íslendinga fengið þvílíka uppskeru og nýja stjórnarskrárfrumvarpið.

Það læðist að manni sá grunur að þingmeirihlutinn láti taka niður styttuna af Jóni Sigurðssyni og reisa nýja af Jóhönnu Sigurðardóttur í hans stað eða þá að Jón fái að standa við hliðina á fimm sinnum stærri Jóhönnu. Þau eru bæði sonur og dóttir Sigurðar, ekki sama mannsins en alla vega sama mannsnafnsins, sem sparar að sjálfsögðu allar nafnabreytingar.

Þar skyldi þó ekki vera kominn fram hinn frægi Sigurður Dýrafirðingur, sjálfur skapari sjálfstæðisbaráttu Íslendinga?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband