Afmælishátíð möppudýranna

skjaldarmerkið

Ég man varla eftir öðrum eins ládeyðukosningum og alþingiskosningunum 2021. Engu er líkar en að stjórnmálamenn séu tilneyddir til að framfylgja þessu fyrirkomulagi þjóðarinnar frá 1944. Eflaust vildu ríkisstjórnarflokkarnir nota kófið sem ástæðu til að sitja fjögur ár í viðbót án kosninga. Önnur eins hamingjutíð landsmanna og síðasta kjörtímabil hefur aldrei sést áður í Íslandssögunni að sögn ráðherra og því óraunhæft að hrófla við því himnaríki með þingkosningum. Fyrir þetta háttsetta fólk er þjóðin fyrir löngu orðin myllusteinn um hálsinn sem er óþarfi að bera.

Fyrsta alvöru vinstri stjórnin upphaf óheillarþróunar

Lágvatnsstefna stjórnmálanna hófst með fyrstu alvöru vinstri stjórninni með Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími. J. Sigfússyni. Þau innleiddu árásir á stjórnarskrá lýðveldisins og tókst að eitra andrúmsloft stjórnmálanna þannig, að jafnvel duglegir einstaklingar, sér í lagi þeir sem kenna sína stefnu við sjálfstæðið, lúffuðu með hökuna á undan sér niður í grasið og hafa ekki staðið upp síðan.

Í tvígang tapaði vinstri stjórnin slag sínum gegn þjóðinni, þegar Icesave-samningar voru felldir. Samkvæmt lýðræðisreglum hefði stjórnin átt að segja af sér, þegar eftir fyrsta tapið eins og ríkisstjórnir lýðræðisríkja t.d. Bretland gerðu. En ríkisstjórn sósíalista og kommúnista tók lýðveldið gíslingu og hunsaði lýðræðislegan vilja þjóðarinnar og sat áfram og notaði völdin til að véla áfram gegn þjóðinni í Icesave 2. Jafnvel eftir þá niðurlægingu og tap gegn þjóðinni sátu sósíalistar áfram á valdastólum. Þannig eru sósíalistar og kommúnistar, þeir hunsa vilja fólksins og traðka á lýðræðisreglum og öllum lýðveldisstofnunum.

Stjórnarskránni vikið til hliðar og stjórnað með ályktunum í stað laga

Vinstri stjórnin er einnig hönnuður þess stjórnarfyrirkomulags að stjórna með þingsályktunum í stað laga eins og samþykkt var á Þingvöllum 1944. Þannig var lagalaus umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu send til ESB og þrátt fyrir að tekist hafi að setja umsóknina í skúffu með bréfi til Brussel, þá hefur þingsályktunarstefnan aldrei verið tekin af borðinu síðan. Þvert á móti hafa flestir flokkar bæði í ríkisstjórn og utan haldið áfram þingsályktunarstefnunni sem orðin er aðalsmerki þeirra að brjóta stjórnarskrána. Orkupakkinn frægi sem Miðflokksmenn stönguðu við litla hrifningu stjórnarskrárbrotamanna er gott dæmi, trúlega er valdníðsla núverandi heilbrigðisráðherra með innkaupum á covid-bóluefnum nýjasta dæmið.

Báknið á Íslandi er að knésetja þjóðina. Menntun hefur verið breytt í braut að lífi sem launaþræll hins opinbera á kostnað skattgreiðenda. Þá minnkar stöðugt rými vinnandi fólks og athafnafólks sem eðli síns vegna draga vagninn áfram. 

Peningaaustur úr ríkissjóði í gæluverkefni flokksgæðinga

Það var merkilegt að heyra Bjarna Benediktsson formann Sjálfstæðisflokksins lýsa sjálfstæðisstefnunni: Niðurgreidd græn orka á kostnað skattgreiðenda. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að greiða úr ríkissjóði fyrir gæluverkefni flokksgæðinga undir samheitinu græna orkan og lýsir formaðurinn því sem mikilli sjálfstæðisstefnu að nota fé landsmanna á þennan hátt. Lægra verður varla lagst og minna slagorð eins og báknið burt í munni sjálfstæðismanna í dag á slagorð sænskra sósíaldemókrata um meiri atvinnu í 1. maí göngu gegn sjálfum sér

Sannleikurinn er sá, að núverandi flokksforysta Sjálfstæðisflokksins er óhæf til að leiða sjálfstæðisstefnu sem rís undir nafninu. Þetta er sama forystufólkið og í tvígang kaus gegn þjóðinni í Icesave. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki gert heimavinnuna sína með skilgreiningu á þessum mistökum heldur fylgir í blindu í fótspor fyrstu alvöru vinstri stjórnarinnar og svikamyllu Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Þetta er því miður braut, sem reynist þjóðinni stórhættuleg og þýðir í lengdina að tækifærin sem talað er um verða: Ísland – land Kínverjanna.

Fjallkonan er enn krossfest uppi á vegg eftir fjármálahrunið 2008. Ólafur R. Grímsson sá að sér eftir að hafa vingast við útrásarvíkingana, sem reyndu að setja þjóðina á höfuðið. Grímsson verður varla talinn heppinn í vinavali, því frá útrásarvíkingum fór hann beint í faðm kínverska Kommúnistaflokksins. Vinstri stjórnin fylgdi á eftir og þar við situr. Sú skelfing sem yfir mannkyn á eftir að dynja frá þessum vinum vinstri aflanna á Íslandi mun skilja eftir sig mun sviðnari jörð og í stærra mæli en Leman Brothers og útrásarvíkingar ár 2008.

Stjórnmálin tekin frá þjóðinni og notuð sem einkafyrirtæki

Stjórnmál á Íslandi eru orðin einkafyrirtæki stjórnmálamanna. Samhliða opinberum og í flestum tilvikum marklausum eiði að stjórnarskránni, fer fram kennsla í nútíma stjórnmnálafræðum: að breyta sér í páfagauk við endurflutning reglna ESB. Eftir morgundaginn munu reglur ESB víkja fyrir reglum kommúnismans. Páfagaukarnir halda áfram enda sjá þeir ekki muninn.

Þjóðin er því miður að komast á sama staðinn aftur og Jón Sigurðsson leiddi hana frá.

Miðflokkurinn er arftaki þeirrar framsóknarstefnu sem stofnaði lýðveldið. Það er nær eina haldreipi stjórnmálanna, sem fjallkonan getur teygt sig í um þessar mundir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Þakka þér Gústaf fyrir enn eina frábæra grein þína.

Guð hjálpi okkur á laugardaginn að velja það sem er okkur til farsældar og hafna því sem leiðir þjóð okkar til helsis.

Tómas Ibsen Halldórsson, 24.9.2021 kl. 10:56

2 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

Þakka þér sömuleiðis Tómas, þjóð vor þarf sannarlega að standa saman.

Gústaf Adolf Skúlason, 24.9.2021 kl. 15:29

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ja hreint afbragð frá einum okkar tryggasta Íslendingi; Gústaf Adolf Skúlasyni. 

Helga Kristjánsdóttir, 24.9.2021 kl. 16:09

4 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Snilldar pistill. Hafðu þakkir fyrir.

Sigurður Kristján Hjaltested, 24.9.2021 kl. 16:54

5 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

Kærar þakkir fyrir innlit og falleg hvetjandi orð.

Gústaf Adolf Skúlason, 25.9.2021 kl. 04:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband