Pólitík og lógík – ekki sami hluturinn

myndÞá er þingflokkur Miðflokksins þriðjungi minni þegar einn af þremur kjörnum þingmönnum Birgir Þórarinsson skiptir um flokk strax eftir kjör fyrir Miðflokkinn og er genginn í þingflokk Sjálfstæðisflokksins. Samkvæmt pólitískum leikreglum er þetta ekki óvenjulegt fyrirbæri og síðast fékk Flokkur fólksins að kenna á því þegar tvöfalt fleiri en Birgir gengu í þingflokk Miðflokksins úr Flokki fólksins.

En hvaða mann maðurinn geymir kemur fram í gjörðum mannsins. Traust mitt sem kjósanda til Birgis Þórarinssonar er rofið, ég sé engin heilindi í því, að fara frá flokknum sem tók stríðið í orkupakkamálinu gegn „Stóra bróðir" og ganga í lið „Stóra bróðurs", sem kennir sig við sjálfstæði en vélar fullveldið jafnt og þétt úr höndum þjóðarinnar til ESB. Birgir Þórarinsson er hreint og beint ekki trúverðugur og mun nú eiga í erfiðleikum með að útskýra fyrir kjósendum sínum, hvernig hann ætlar að vinna gegn orkustefnu Sjálfstæðisflokksins í Sjálfstæðisflokknum. 

Sjálfstæðismenn eru að sjálfsögðu fegnir þeim skaða sem Birgir Þórarinsson veitir Miðflokknum og opna dyrnar fyrir hann svo skaðinn geti orðið að veruleika. Hvernig Birgir ætlar síðan að þykjast vinna fyrir fullveldið hjá þeim flokki, sem hefur tekið upp ljóta siði sósíaldemókrata og skautar fram hjá stjórnarskránni og er orðinn eiginlega bara Samfylking „light" með alla fullveldissinna múlbundna í bjargi og móum, á eftir að koma í ljós. Jafnvel góðir menn eins og Arnar Þór Jónsson munu ekki eiga uppdráttar í því hagsmuna- og kerfisskrímsli sem flokkur sjálfstæðisstefnunnar er orðinn. 

Brottför Birgis Þórarinssonar úr Miðflokknum og liðhlaup mun bara efla þrjóskuna hjá þeim krafti sem var leiðandi afl í baráttunni gegn Icesave. Þeir sem drúpa höfði fyrir landsölufólki, ESB-sleikjum, stjórnarskrárniðurrifsmönnum og raunverulegum föðurlandssvikurum munu ekki eiga léttara með að telja kjósendum trú um að gjörðir þeirra merki hið gagnstæða. 

 

PS. Ég flutti greinina yfir í tengingu við grein MBL um málið á mbl.is og þá sá ég að ein athugasemd hafði verið gerð sem því miður féll niður áður en ég náði að lesa hana. Biðst velvirðingar á því....


mbl.is Birgir skilur við Miðflokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: G Helga Ingadottir

Jú þetta eru svik við kjósendur. Hins vegar er ekki alveg sami gjörningurinn þarna og þessir tveir úr Flokki fólksins, sem að voru reknir úr þeim flokki og sátu fyrst um sinn flokkslausir inni á þingi - áður en þeir gengu svo til liðs við Miðflokkinn sem að jú bauð þá velkomna. 

Hins vegar er þingmaður sem að kemst inn á þing í gegn um ákveðinn flokk í vinnu hjá þjóðinni og á hinum almenna vinnumarkaði er það þannig, að ef að einhver er rekinn úr vinnu, þá ber atvinnurekendanum að borga uppsagnarfrest, nema sannast hafi lögbrot, t.d. þjófnaður eða þannig. Ef þú segir sjálfur upp þá fyrirgerirðu hluta af þínum réttindum ef ekki öllum og ert jafnvel í skuld við atvinnurekendann, ef að viðkomandi gengur út og skilur við sig með allt í ólestri. Eftir því sem að ábyrgðin er meiri á viðkomandi sem að hleypur úr starfi, er mögulegt að draga laun af viðkomandi.

Hvernig má það vera að maður sem að fær 2 miljónir á mánuði, ef að það er rétt sem að Inga Sæland segir um kaup og kjör alþingismanna, geti bara haldið sínum kjörum, þegar að hann ákveður sjálfur að hætta að vinna fyrir þann flokk sem að hann fer inn á alþingi fyrir. 

G Helga Ingadottir, 9.10.2021 kl. 13:44

2 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

Sæl Helga og þakkir fyrir innlit og athugasemd. Já er það ekki merkilegt að komast inn á þing fyrir xM en síðan þegar búið er að kjósa segjast ætla að vinna fyrir xD. Stjórnmálasvik heitir þetta og algjör svik við kjósendur. En hræddur er ég um, að það sem reiknast hjá féhirði ríkisins sem borgar út launin, sé þingmaður en ekki flokkur. Svo hversu slæmt það er, þá heldur hann þingmannslaunum, þótt hann skipti um flokk. Þetta er siðlaust en ég held löglegt, samtryggingin sér um sína. 

Gústaf Adolf Skúlason, 9.10.2021 kl. 14:10

3 Smámynd: G Helga Ingadottir

Jú Féhirðir Ríkisins fer með fé almennings, skattfé, Ríkið lifir á skattgreiðendum og við erum jú Ríkið, þess vegna eru Alþingismenn í vinnu hjá ríkisborgurum þessa lands. Það að Alþingismenn geti síðan hagað sér bara eftir vindátt, en eru lýðræðislega kjörnir inná þing af þegnum landsins - lýðræði heitir það, sem að svo virkar bara rétt í kosningunum. Hvað ef að allir þingmenn færu nú bara að skipta um flokka í einu, strax eftir kosningar og þá væru allt í einu allt önnur kosningaúrslit, spáðu nú í það. Hvar væri lýðræðið þá?

G Helga Ingadottir, 9.10.2021 kl. 15:03

4 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

Sæl aftur Helga, já segðu, það gengi náttúrulega ekki og fólk yrði að byggja nýtt Alþingi með girðingu gegn slíkum leik. Sem betur fer ekki reglan, þetta er náttúrulega Birgi sjálfum mest til skammar, hann sýnir að hann hefur gefist algjörlega upp hefur fallist hendur, þegar flokkurinn fékk slæma kosningu. Mikil hræsni að nota orðið heilindi yfir slík svik. Og lélegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að taka á móti pólitískum flóttamönnum. Tækifærisstefna stjórnmála nútímans ríður ekki við einteyming.

Gústaf Adolf Skúlason, 9.10.2021 kl. 16:41

5 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Hvernig er uppgjafa málshátturinn enski "ráðirðu ekki við andstæðinginn,gakktu þá í lið með honum" Það gerði garpurinn Birgir og væri eg heil færi eg á þingpalla til að hlusta á fyrstu ræðu hans eftir gönuhlaupið.-  

Helga Kristjánsdóttir, 9.10.2021 kl. 22:26

6 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

Sæl Helga og takk fyrir innlit og athugasemd, já trúlega hefði Birgir aldrei komist inn á þing nema fyrir tilstilli kjósenda Miðflokksins, varla hefðu Sjálfstæðismenn tekið honum jafn fjálglega og núna eftir að atkvæði kjósenda Miðflokksmanna breyttust í atkvæði fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Gústaf Adolf Skúlason, 10.10.2021 kl. 04:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband