Hrekkjavika í boði ESB - allt árið

katrin1Þá er haustfríi lokið eftir ferðalag m.a. til Búdapest. Alltaf gott að koma þangað en þar voru bæjar- og sveitastjórnarkosningar og skipt um borgarstjóra í Búdapest. Flokkur Viktor Orbáns tapaði og vinstra liðið vann og fyrsta loforð hins nýja meirihluta var að slefa fyrir George Sóros með ósk um að hann kæmi aftur til Ungverjalands með eitthvað af aurum. Viktor Orbán er hins vegar staðfastur leiðtogi sem fjölgar í landamæragæslunni og ávarpaði fjölda nýráðinna liðsmanna á hinu fallega hetjutorgi og hvatti þá til að standa vel vörð um Ungverjaland. Orbán ver kristin gildi, fjölskylduna og segir Ungverja ekki taka við innflytjendum frá ESB nema að Ungverjar ráði við að aðlaga þá að ungverskum siðum.

Annað gildir í ESB og þar er Svíþjóð verstbest og gott að komast burtu þaðan í nokkra daga og hvílast án skothelds vestis. Í Svíþjóð eru sprengingar hversdagslegur hluti nútíma ímyndar landsins. Fjöldi öryggissérfræðinga, háskólaprófessora og annarra vara við eyðileggingu sænska ríkisins. Prófessor Wilhelm Agrell við háskólann í Lundi skrifar í Sænska Dagbladet að "Svíþjóð hefur orðið fyrir barðinu á vaxandi og sífellt grófara, glæpsamlegu ofbeldi...Einkaréttur samfélagsins á ofbeldi, sjálft auðkennið á virku, sjálfstæðu ríkisvaldi, hefur skref fyrir skref verið brotið niður og finnst ekki lengur. Stofnanir samfélagsins hafa breyst í að vera einn af mörgum aðilum sem beita ofbeldi." Framtíðarsýnin sem prófessorinn boðar verði ekki gripið til róttækra aðgerða er ófögur fyrir þetta forðum svo friðsamlega land.

Hrekkjavika stendur fyrir dyrum og vonandi kemur í ljós hvort hinni eilífu Brexit hrekkjaviku ESB-sinna í Bretlandi lýkur. Bæði í Bretlandi og á Íslandi stendur baráttan milli lýðræðislegra kjörinna embættismanna og starfsmanna kerfisins sem enginn hefur kosið. Sýnu verr á Íslandi með svo marga stjórnmálamenn sem eru í hlutverkum "undirmanna embættismanna" svo vitnað sé í Reykjavíkurbréf dagsins:

"Þegar við bætist að nánast allur þorrinn af löggjöfinni kemur nú annars staðar frá, þvert á gefin fyrirheit, og því sé blákalt haldið fram að heimildin til þessa hafi verið svikin inn á þjóðina, þá er orðið lítið eftir. Niðurstaða „stjórnvalda“ í seinasta deilumáli var sú að Ísland hefði ekki lengur heimild til þess að hafna fyrirmælum sem send væru að utan til fullgildingar hér. Þótt athæfið brjóti sannarlega bæði lög landsins og stjórnarskrá þess þá breyti það ekki því að óheimilt sé að horfa til slíkra heimilda, vegna þess ótta sem embættismenn hafi komið sér upp og miðlað til undirmanna sinna, stjórnmálamannanna." Reykjavíkurbréf 26.okt 2019

Að íslenskir ESB-sinnar hafa hreiðrað um sig í kerfinu og róa öllum árum að því að koma landinu inn í ESB er vel lýst í 25 milljón króna skrifborðssnákafæðu sem gengur undir nafninu EES-skýrslan. Þar er lýst í flækjupunktum hvernig rústa á stjórnarskránni og leggja lýðveldið að velli svo báknverjar geti matað krókinn það sem eftir er í þjónustu ESB eins og hirð Lúðvíks XIV Sólarkonungs forðum. 

Endalaus hrekkjavaka í boði báknverja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Guðnason

Ólíkt höfumst vér að. Á meðan þú brást þér í haustfrí til Ungverjalands, þá brá ég mér í haustfrí til Stokkhólms. Eftir lýsingar þínar á notkun skotheldra vesta í Svíþjóð líður mér eins og svæsnasta áhættuleikara í bandarískri hasarmynd því eg sprangaði til dæmis um Drottninggatan í Stokkhólmi klæddur bómullarskyrtu og ullarpeysu að ofan og bómullarbrók og buxum að neðan. Eigi leið mér samt sem ég væri í mikilli yfirvofandi hættu þegar ég stóð fyrir framan minn fyrrum vinnustað á Drottninggatan. Vissulega var framið óhæfuverk á Drottninggatan fyrir eigi allöngu síðan en annars er það hin friðsælasta gata alla jafna. Engir fyrrverandi vinnufélaga minna ganga í skotheldum vestum og eru þeir því meiri hetjur en mig nokkurn tímann hefði grunað eftir lestur þessarar færslu þinnar og raunar margar fyrri færslna þinna þar sem skrif þín einkennast af ofstopa og heift út í ráðandi öfl í Svíþjóð. Ég á mikinn fjölda vina og kunningja í Svíþjóð auk þess að eiga systur búsetta þar. Dags daglega hef ég engar áhyggjur af þeim þar sem ég lít á Svíþjóð sem afar friðsælt ríki enn þann dag í dag. Ég kem við og við til Svíþjóðar, Stokkhólms, Málmeyjar og Lundar, í vinnuerindum og hef aldrei upplifað það samfélag sem þú fjálglega lýsir í hræðsluskrifum þínum. Enn um sinn mun ég halda mig við bómullarskyrtuna og ullarpeysuna.

Magnús Guðnason, 26.10.2019 kl. 17:50

2 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

Sæll Magnús, þakka þér innlit og athugasemd. Þú ættir að spyrjast fyrir um hvers vegna ríkisstjórnin í Danmörku er að koma á hertu eftirliti við landamærin að Svíþjóð. Varla er það vegna "ofstopans" í mér? Skothelda vestið er ekki bókstaflegt, meira sálfræðilegt. Ég vildi líka geta bara komið í heimsókn af og til óvitandi um rauverulegt ástand ...hjálpar því miður ekki þeim sem lifa stöðugt í ótta við ofbeldi eða hafa týnt lífinu fyrir það eitt að hafa verið á vitlausum stað á vitlausum tíma. Gott hjá þér að vera á bómullarskyrtu, það hef ég líka verið :) Stokkhólmur er fallegust höfuðborga Norðurlanda finnst mér en varla hræðsluáróður að ræða erfið vandamál sbr. skrif prófessors Wilhelm Agrells sem ég vitna í að ofan.

Gústaf Adolf Skúlason, 26.10.2019 kl. 18:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband