Arnþrúður Karlsdóttir leiðir brautina að heilbrigðari viðskiptaháttum fjölmiðla

ruvSkattfjármagnað RÚV hefur ekkert að gera á auglýsingamarkaði. Setja þarf lög sem banna skattfjármögnuðum miðlum að sækja tekjur einnig á auglýsingamarkað. Ríkisstjórnin vinnur gegn frjálsri samkeppni á fjölmiðlamarkaði.

Spilling hins opinbera birtist hvað skýrast í starfsháttum RÚV en félagið hefur um áratugi verið allsráðandi aðili á auglýsingamarkaðnum á Íslandi. Ekki dugir að búið sé að koma á nefskatti til að innsigla þvingandi kaup sérhvers mannsbarns á áróðri ríkisstofnunarinnar heldur þarf félagið einnig að gapa yfir auglýsingamarkaðnum með tilheyrandi olnbogaskotum og útslætti minni aðila.

Arnþrúður Karlsdóttir upplýsir um útilokun lítilla fyrirtækja á fjölmiðlamarkaðinum vegna "undanþágu frá samkeppnislögum s.l. 10 ár" sem geri það að verkum að hefðbundnar auglýsingastofur selja ekki auglýsingar nema til þeirra sem eru með í Gallup-klíkunni sem innsigluð er og stjórnað í samvinnu við RÚV. Spillinguna staðfestir síðan Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins sem segist "hafa lengi bent á þá samkeppnisskekkju sem leiðir af því að RÚV með sínar opinberu tekjur taki þátt í samkeppni á auglýsingamarkaði."

Enn eitt dæmið um hræsni og ræfilshátt stjórnmálamanna sem þykjast verja frjálsa samkeppni en eru bara í blaðrinu. Ekki er lengur hægt að treysta forystu Sjálfstæðisflokksins til að stuðla að frjálsri samkeppni; þingmennirnir eru svo sjálfuppteknir af eigin hégóma, nafnspjaldatitlum og launagreiðslum að úttöluð stjórnmálamarkmið eru hvorki prentsvertu né útsendingar virði.

Taka þarf til í spillingarbælinu og henda þessum afætum burt af Alþingi í næstu kosningum og gefa í staðinn nýju fólki tækifæri til að sýna getu sína.

Við þurfum fleiri bæði konur og karla sem hugsa og starfa eins og Arnþrúður Karlsdóttir.


mbl.is Vill að brugðist sé við óheilbrigðri samkeppni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Haf þú þökk kæri Gústaf Adolf fyrir að vekja máls á þessum ójöfnuði milli fjölmiðla. Ég held að þetta muni aldrei lagast með einhverjum þvingunum á einn eða annan fjölmiðil umfram hinn. Ég tel að ójöfnuð þennan verði að jafna með því að afnema skylduáskrift skattborgaranna að RÚV og banna þar að auki að það fái að krefja ríkissjóð um að lagfæra yfirdrátt sinn hjá lánastofnunum til viðbótar skylduáskriftinni sinni af skattfé eins og það hefur að jafnaði fengið um að bil árlega um áratuga skeið. Eftir að skylduáskriftin yrði afnumin þá yrði RÚV að standa sig á markaði á sömu forsendum og aðrir fjölmiðlar og afla sér tekna á sömu forsendum og aðrir. Þeir sem lengst vilja ganga í jöfnuði telja sömuleiðis að verðmæti RÚV yrði metið, það er að allar eigur RÚV efnislegar sem óefnislegar, yrðu metnar af óháðum matsmönnum og í framhaldi þess yrði RÚV ohf. að undirrita skuldabréf til einhverra ára eða áratuga sem eðlilegt mætti telja á markaði og með markaðsvöxtum og þannig greiddi RÚV ohf. fyrir eigurnar sem það hefur í fórum sínum til skattgreiðenda þau verðmæti sem það hefur í forskot umfram aðra fjölmiðla.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 15.8.2019 kl. 11:52

2 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

Þakka einnig þér kæri predikari sem hér bendir réttilega á leið sem hægt væri að fara. Þetta væri líka e.t.v. mögulegt með lokun RÚV og uppsögnum starfsmanna og síðan keypti ríkið inn þessa þjónustu í staðinn í gegnum útboð. Þá gætu einhverjir starfsmenn RÚV tekið sig saman og stofnað félag til að gera tilboð í reksturinn. Eða leiðin sem þú bendir á sem þýddi að farið yrði úr stóru fatanúmerinu niður í eðlilega stærð. Hér þarf að grípa til hendi og afar gott mál hjá Arnþrúði að vera kyndilberi í málinu.

Gústaf Adolf Skúlason, 15.8.2019 kl. 12:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband