Til hamingju Íslendingar með aldarafmælið

45999059_2375311675829646_4880850390507061248_oÞað ríkir gleði í hjarta yfir 100 ára afmæli fullveldisins í dag 1. desember 2018. Í Stokkhólmi söfnuðust yfir 150 Íslendingar og Svíar í Menningarhúsi borgarinnar 15. nóv. s.l. til að halda upp á afmælið í boði sendiráðs Íslands, Norræna félagsins og Menningarhússins. Estrid Brekkan sendiherra Íslands ávarpaði samkomuna og lýsti aðdraganda og stofnun fullveldisins. Bjarni Thorsson og Bára Lyngdal lýstu reynslu sinni af aðlögun Íslendings að sænskum siðum sem fékk marga til að brosa og Ari Þorsteinsson gerði samanburð á íslenskum og sænskum kvikmyndum. Að auki sungu Stína Ágústsdóttir og Marína Ósk jazzaðar útfærslur norrænna jólalaga við góðar undirtektir.

Fullveldið er mikilvægasta fjöregg hverrar þjóðar. Grundvöllurinn að sjálfstæði þjóðarinnar. Sjálfstæð þjóð er sem fullgildur fullorðinn og ber ábyrgð á eigin orðum og gjörðum. Ekki í ánauð neins annars og tekur eigin ákvarðanir um framtíð og örlög sín. Frjáls þjóð.

Ófriðsamlegt heimsástand

Það er sérstaklega aðkallandi í vopnaglamrandi heimi, að vopnlaus örþjóð á eyju í Norður-Atlantshafi haldi sér undan, þegar "stóru strákarnir" fara að yggla brýrnar. 

Pútín og Xi Jinping í austri, Juncker í Evrópu, bin Salman, al-Assad og Rouhani í Miðausturlöndum og marga fleiri mætti upp telja í röðum þeirra sem krefjast stærri landssvæða, meira valds og beygja bæði erlend ríki sem eigin þegna undir vilja sinn. Í dag því miður í skjóli hers og sprengjukrafts. 

Germanía hefur náð fyrri styrk og stjórnar á meginlandinu

Þýzkaland hefur endurreist fyrri ægishjálm yfir öðrum þjóðum í Evrópu og aðeins tímaspursmál, þar til einstök ríki ESB ganga í eina sæng með Þjóðverjum og mynda stórríkið. Þá vantar ekkert nema nýjan brjálæðing til að skapa DEJA VU seinni heimsstyrjaldarinnar, því Þjóðverjar munu byggja upp hernaðarmátt sinn að nýju gegnum ESB og sniðganga þannig samningana í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar. 

Efnahagshrun ýtir undir hernaðarbrölt

Efnahagur heimsins hefur enn ekki náð sér eftir Lehman Bræður og sök AGS, Seðlabanka Bandaríkjanna og Evrópusambandsins er stór. Á nákvæmlega sama hátt og fyrir "kreppuna miklu" en með nýrri tækni hefur innistæðilausum peningum verið fleygt yfir fjármálamarkaði um árabil til að seðja mestu fjárgirndina. En Mammon er óseðjanlegur guð svo nýs fjármálahruns er að vænta. Verða seðlabankarnir krafnir reikningsskila á bókfærðu eigin fé verður hrunið botnlaust.

Hvað gera Íslendingar ef stríðið kemur? 

Á stríðstímum er eldur og stál að baki fullveldi. Ísland hefur sögur og tungumál sem fuðra upp með fullveldinu í stórveldaátökum. Kjörnir alþingismenn ættu frekar að hyggja að stefnu Íslands ef til stórstyrjaldar dregur en ræða útlit hvers annars og nota alþingissali fyrir auglýsingamyndatökur. 

Í valinu milli austurs og vestur hefur ekkert breyst. Ef Íslendingar halla sér að austrinu fer illa. Lýðræði og frelsi fullvalda þjóða er vegur Íslands. Í dag sem fyrr borið uppi af Bretum og Bandaríkjamönnum.

Fyrir titrandi smáblóm sem tilbiður guð sinn er vegferðin vandasöm og verður ekki rötuð með kjörnum embættismönnum sem taka eigin skammtíma hag fram yfir velferð þjóðarinnar.

"Klausturfóbían" getur hjálpað Alþingi og þjóðinni

Eftir einkasamkomu sex þingmanna á Klausturbar standa kröfurnar skýrari til kjörinna embættismanna, að þeir fari ekki yfir mörk almenns velsæmis. Fyrir þá þingmenn sem "staðnir voru að verki" hefur atburðurinn gjörbreytt og rústað lífum einhverra þeirra. Allir sem þekkja til ofneysluvandamála, vita hversu ömurlegt það er fyrir viðkomandi að þurfa að treysta á frásögn annarra daginn eftir þegar minnið svíkur. Að vera drekkt í slíkum frásögnum af óvönduðum miðlum stjórnmálaandstæðinga var að sjálfsögðu ekki það sem þingmennirnir ætluðu sér, þegar þeir ákváðu að hittast á barnum.

Í Reykjavíkurbréfi dagsins skrifar höfundur: "Á Íslandi fórnaði "litli sómamaðurinn" sér í þetta. Hann sagði sjálfur að af þessum sex, sem töluðu svo hátt við borð, hefði hann aðeins þekkt einn í sjón, Sigmund Davíð. Hann ákvað þó að taka upp fjögurra klukkutíma spjall þingmannsins við, þess vegna fimm almenna borgara, sem hann hafði ekki hugmynd um hverjir væru! Er það virkilega? Er það þess vegna sem hann vill ekki láta nafngreina sig?"

Höfundur bréfsins hefur sjálfur þurft að taka við ómældum lygaáróðri og verið ranglega borinn sökum á misgjörðum annarra. T.d. var ráðist að heimili hans og fjölskyldu og sjálfsagt hefur líf hans á einhverju augnabliki verið raunverulega í hættu. Öryggisgæsla lýðræðislega kjörinna embættismanna er ofarlega á blöðum nágrannaríkjanna og full ástæða fyrir íslenska lýðveldið að huga betur að þeim málum. Saklaus sími - í þessu tilviki notaður sem upptökutæki - gæti í öðrum og verri tilgangi verið sprengja. Þessum raunveruleika ættu Íslendingar að gefa gaum vegna eftirlitslausra ferða "sómamanna" til landsins.

Ég fyrirgef þessum þingmönnum, hef sjálfur átt góð samtöl við þrjá þeirra og styð að sjálfsögðu björg til sjálfsbjargar. Þeir þurfa allir að greiða hátt persónulegt verð fyrir Klausturferðina. 

Að lokum

Ég óska sjálfum mér og öðrum Íslendingum til hamingju með fullveldið og er þess fullviss, að þjóðin á í fórum sínum stjórnmálaleiðtoga sem geta staðið í fæturna og stýrt skútunni í þeim ólgusjó heimsmálanna sem er framundan.


mbl.is Hefði átt að stöðva samsætið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband