Ofurhetja evrunnar þjónar ekki hagsmunum Íslands

Það er miður að horfa upp á fjármálaráðherrann tala niður íslensku krónuna eins og Benedikt Jóhannesson gerir. Maðurinn lifir í þeirri von, að honum takist að safna fylgi Íslendinga til að henda sjálfstæði landsins fyrir róða og afhenda ESB landið. 

Íslendingar svöruðu þeirri spurningu með rasskellingu hrunstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur sem lá við að útrýmdi Samfylkingunni. Örlög Viðreisnarflokks fjármálaráðherrans verða þau sömu með endurspilun á gömlum boðskap Samfylkingarinnar. 

Afstaðan til ESB er spurning um innanflokksklofning Sjálfstæðisflokksins. Í stjórnmálaályktun Sjálfstæðisflokksins 24. september 2016 segir: "Við áréttum að hagmunir Íslands eru best tryggðir utan Evrópusambandsins".

Viðreisn er flokksbrot óánægðra Sjálfstæðismanna sem vilja ganga í ESB og skilja ekki að þjóðin hefur hafnað aðild að ESB.

Sjálfstæðismenn hafa boðað til Landsfundar í haust og er það vel, því flokkurinn verður þar að taka skýra afstöðu til peningastefnunnar. Flokkurinn minnist ekkert á gjaldmiðilinn í ályktuninni 24. sept. 2016 en talar um myndun stöðugleikasjóðs til að draga úr efnahagssveiflum. Í ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins 2015 segir um gjaldmiðilinn:

"Íslenska krónan í höftum getur ekki verið framtíðargjaldmiðill þjóðarinnar ef Íslendingar vilja eiga þess kost að taka þátt í alþjóðlegri samkeppni. Kanna skal til þrautar upptöku myntar sem gjaldgeng er í alþjóðaviðskiptum í stað íslensku krónunnar og gefa landsmönnum og fyrirtækjum frelsi til að ákveða hvaða gjaldmiðill hentar þeim best."   

euroEf það er stefna Sjálfstæðisflokksins að hafna íslensku krónunni vegna þess að hún sé ekki gjaldgeng í alþjóðaviðskiptum, þá er það spurning hvort ekki fari betur á því, að Benedikt Jóhannesson verði gerður að formanni Sjálfstæðisflokksins í stað Bjarna Benediktssonar. 

Með Captain Euro við róðrið verður bæði stjórnarskrá Íslands og íslenska krónan fótum troðin.


mbl.is Benedikt: ber skylda til að hafna krónunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birgir Örn Guðjónsson

Hvar talar hann um evruna í þessari frétt ?

Birgir Örn Guðjónsson, 20.7.2017 kl. 12:09

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Birgir. Hér er tilvitnun úr þeirri grein Benedikts í Fréttablaðinu sem vitnað er til í frétt Mbl.is:

"Viðreisn bendir á myntráð til þess að festa gengi krónunnar. Mörg Evrópuríki hafa nýtt slíka lausn í áratugi, flest sem áfanga í því að taka upp evru. Eftir hrun töldu sumir krónuvinir að það tæki Íslendinga áratugi að uppfylla skilyrðin fyrir upptöku evru. Eina skilyrðið sem við föllum á núna er of háir vextir.
En má fjármálaráðherra hafna krónunni? Fjármálaráðherrar í nítján Evrópulöndum hafa þegar hafnað sínum miðli fyrir evruna. Enn fleiri nýta sér evruna án beinnar aðildar eða tengja gjaldmiðil sinn beint við evru."

Þarna nefnir hann evruna alls fjórum sinnum.

Þetta svarar vonandi spurningu þinni.

Og svarið við þeirri spurningu sem Benedikt varpar fram í greininni: Nei, fjármálaráðherra Íslands má ekki hafna lögeyri landsins, því það er einfaldlega lögbrot. Ef hann hefur áhuga á að breyta þeim lögum er Alþingi vettvangurinn til þess, en á meðan þau lög eru óbreytt þá verður hann að virða þau eins og allir aðrir.

Guðmundur Ásgeirsson, 20.7.2017 kl. 13:19

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þakka þér margar góðar áherzlur hér, Gústaf.

    • ESB-innlimunarsinninn á stóli fjármálaráðherra Íslands, í boði Sjálfstæðisflokksins, þegir um þá staðreynd, að það var okkar sveigjanlegi gjaldmiðill, krónan, sem opnaði með gengisfellingunni 2008 á margfalt innflæði ferðamanna hingað og margfaldlega auknar gjaldeyristekjur, einnig veruleg tekjuaukning í útflutningsgreinum okkar eins og sjávarútvegi og hugbúnaðargeiranum.

    • Gengisfellingin orsakaði tímabundna lífskjaraskerðingu almennings, en síðan mikinn uppgang í atvinnumálum, atvinnuleysi hvarf nánast, launaskrið tók við, batnandi lífskjör og síauknar tekjur ríkisins.

    • Allt annað gerðist á Írlandi: Írar guldu þess að hafa ekki sveigjanlegan gjaldmiðil og að þurfa að lúta boðum ESB um að þjóðin tæki á sig hrun bankanna; gríðarlegt atvinnuleysi hlauzt af þar, fór yfir 12% árið 2009 og upp í 14,8% 2012, en komið niður í 8,1% í júlí 2016 og 6,9% í janúar sl., en nú 6,3% og er þó enn 18,75% á Spáni.*

    • Dæmi um gagnsemi krónunnar er í viðtali við gamlan nágranna minn, Hafberg Þórisson, forstjóra gróðrarstöðvarinnar Lambhaga, í miðopnu Viðskipta-Moggans í dag, en þar segir hann m.a. (leturbr. jvj): "Þegar ég hugsa um það núna þá er alveg augljóst að hrunið hjálpaði mér og íslenskri garðyrkju almennt. Íslensk framleiðsla var hagstæðari vegna gengisins, en auk þess var auðveldara að fá fjármagn þar sem bankarnir höfðu allt í einu trú á mér."

    • Í stað þess að nöldra út í krónuna ætti Benedikt að vinna að því með frænda sínum BB að knýja fram a.m.k. helmingslækkun á stýrivöxtum Seðlabankans, það myndi bæta á ný rekstrarskilyrði útflutningsgreina og stórlækka vaxtagreiðslur almennings. En líklega er Benedikt þetta þvert um geð -- hann vill geta haldið áfram að kenna krónunni (ekki sjálfum sér!) um háa vexti á Íslandi!! Tilgangurinn að baki er annarlegur: að reyna að stuðla að því að Íslandi verði rennt inn í Evrópusambandið.

    * https://tradingeconomics.com/ireland/unemployment-rate og http://www.finfacts.ie/irishfinancenews/article_1024459.shtml

    Jón Valur Jensson, 20.7.2017 kl. 13:43

    4 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

    Kærar þakkir fyrir stuðninginn og góðar athugasemdir Guðmundur og Jón. Gott að fá orðin um skyldur fjármálaráðherrans gagnvart lögunum og sömuleiðis gott og fróðlegt að fá þennan samanburð við Írland. Einmitt það sem þú skrifar Jón, þá er evran ósveigjanlegur gjaldmiðill sem skaðað hefur mörg ríkin sem tekið hafa hana upp. 

    Gústaf Adolf Skúlason, 20.7.2017 kl. 14:24

    5 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

    Það er eins og sumir haldi að gjaldmiðlar séu lífverur með sjálfstæðan vilja og fari fram eftir eigin geðþótta. Ráðherra fjármála virðist ekki skilja það að hans eigin gjörðir eða aðgerðarleysi getur haft gífurleg áhrif á krónuna og þau áhrif sem hún hefur á þjóðfélagið. Ráðherrann og Seðlabankinn hafa mikið um það að segja hversu sveiflukennd krónan kann að vera. T.d. allt of háir vextir eru á valdi Seðlabankans sem gerir það að verkum að krónan er allt of sterk, eins gífurleg gjaldeyriskaup bankans og ég tala nú ekki um aðgerðir tengdum afnámi gjaldeyrishafta.

    Með upptöku evru eða annars gjaldmiðils getur sá gjaldmiðill haft veruleg áhrif á þjóðartekjur, inn- og útflutning sem yrði ekki endilega til heilla fyrir landslýð, gæti alveg eins og trúlega enn frekar orðið til baga.

    Ég trúi því ekki að þjóðin væri til í slíkt happdrætti, við sjáum hvernig farið hefur hjá öðrum þjóðum sem ekki hafa vald yfir eigin gjaldmiðli, þar hafa víða atvinnuleysi aukist verulega og fátækt þar með. Viljum við slíkt hér á landi, er Benedikt Jóhannesson tilbúinn að axla þá ábyrgð gagnvart landsmönnum?????????? Ég held hann sé ekki maður til þess, frekar en þeir sem ólmir vildu byggja Landeyjahöfn sem ætlar að verða okkur endalaust til baga og fjáraustur í að dýpka og dýpka og dýpka án afláts.

    Því miður eru allt of margir tilbúnir að taka að sér að vera ráðherrar í ríkisstjórn, fara fram með allskonar vitleysu og hlaupast síðan undan ábyrgð, þurfa aldrei að takast á við vitleysuna sem þeir hafa komið okkur út í.

    Tómas Ibsen Halldórsson, 20.7.2017 kl. 15:32

    6 Smámynd: Jóhann Elíasson

    Fjármálaráðherra virðist alls ekki gera sér grein fyrir því að KRÓNAN sem slík á ENGA sök á ástandinu HELDUR ER ÞAÐ EFNAHAGSSTJÓRNUNIN. KANNSKI ÆTTI HANN AÐEINS AÐ LÍTA Í EIGIN BARM (ÁRINNI KENNIR ILLUR RÆÐARI).

    Jóhann Elíasson, 20.7.2017 kl. 16:18

    7 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

    Þakkir Tómas og Jóhann. Kjarni málsins, efnahagsstefnan segir til um árangurinn. Merkilegt að kenna gjaldmiðilinum um, þegar stefnunni er ábótavant. En þeir sem vilja selja landið fyrir eigin snúð eru ekki að eyða tímanum í svoleiðis smámál.

    Gústaf Adolf Skúlason, 20.7.2017 kl. 17:27

    Bæta við athugasemd

    Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

    Innskráning

    Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

    Hafðu samband