Jarðvegurinn þroskast fyrir afturköllun umsóknar

UnknownÞað var afar ánægjulegt að lesa alveg prýðilegt viðtal við fjármálaráðherra Íslands, Bjarna Benediktssonar í Frjálsri Verslun varðandi aðildarumsókn Íslands að ESB. Það var löngu tímabært, að Bjarni tæki blaðið frá munninum og gæfi afdráttarlausa afstöðu hans sjálfs sem formanns Sjálfstæðisflokksins í einu af stóru málum þjóðarinnar. 

Bjarni hefur alveg hárrétt fyrir sér í því, að ríkisstjórnarflokkunum ber engin skylda til að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um strandað mál fyrri ríkisstjórnar. Kjósendur gáfu henni eitt lengsta nef kosningasögunnar í síðustu alþingiskosningum. Það er enginn grundvöllur að þvinga upp á ríkisstjórnina eftirákosningu, þótt ýmis orð hafi fallið í aðdraganda kosninganna. Bellibrögð síðustu ríkisstjórnar varðandi "kíkja í pakkann" dæmið eru engin vinnubrögð að taka eftir og hreinskilin umræða byggð á staðreyndum besta leiðin til að skýra málin.

Bjarni skýrir öll helstu rök fyrir afturköllun umsóknarinnar t.d. eins og að það sé í raun og veru ekki svo mikið mál eins og aðildarsinnar reyna að blása upp, þar sem "Komi fram vilji til að halda viðræðunum áfram erum við hvort sem er á byrjunarreit. Það að draga umsóknina til baka er því ekki jafnstór ákvörðun og menn láta í veðri vaka. Það er miklu frekar formsatriði og afdráttarlaus yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um stöðu málsins; að við séum ekki lengur umsóknarríki."

Bjarni bendir enn frekar á að hann hafi greitt atkvæði gegn tillögunni um að ganga í Evrópusambandið og er full þörf á að minna á það, þar sem fyrri ríkisstjórn meinaði þjóðaratkvæðagreiðslu um málið en lætur í veðri vaka í stjórnarandstöðu að "kasta beri eldi og brennisteini" að þeim sem ekki vilja fylgja stefnu sinni.

Margt hefur einnig komið fram hjá Samfylkingarmönnum eins og Jóni Baldvini Hannibalssyni sem loksins virðist farinn að gera sér grein fyrir ástandinu hjá ESB, bankastefnunni og hvernig evran hefur leikið lönd eins og Grikkland grátt.

Formaður Samfylkingarinnar Árni Páll Árnason hefur einnig lýst nagandi efasemdum um ESB og allt er það blessað og gott að þeir blindu nú byrja að öðlast sýn og er það góðra gjalda vert.

Staðan varðandi ESB-umsókn fyrri ríkisstjórnar, sem þjóðinni var sagt ósatt um að væri ekki alvöru umsókn, þar sem bara væri verið að "kíkja í pakkann og sjá, hvað hægt væri að velja um" má líkja við eftirfarandi:

Fjallkonan var kefluð þegar hún var þunguð af ESB-umsókninni. Henni var bannað að segja sitt álit og ekki gefið tækifæri á að ráða hvað hún vildi gera sjálf. Eftir nokkurn tíma varð fóstrið andvana og aðstandendur þess vilja ekki fjarlægja það heldur eyða tímanum í að fá hana til að samþykkja framlengdan meðgöngutíma sem setur líf hennar í hættu.

Þegar fólk ber að garði sem bendir á þá einföldu staðreynd að aðskilnaður andvana fósturs og móðurinnar er grundvöllur áframhaldandi lífs móðurinnar, þá er þeim og fjallkonunni hótað með eldi og brennisteini. (Virðist greinilega vera í tísku hjá stjórnarandstöðunni sem svar við öllu núorðið. Af hverju fer stjórnarandstaðan ekki bara til Bárðarbúngu? Nóg er að taka af þar).

Málið er viðkvæmt. Dagur breytinga er kominn. 

Fjallkonan verður að fá að lifa.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Hún lifi; 5-falt húrra. 

Helga Kristjánsdóttir, 8.3.2015 kl. 01:47

2 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

Takk Helga, tek undir með þér: Fjallkonan lifi! Húrra, húrra, húrra, húrra, húrra!

Gústaf Adolf Skúlason, 8.3.2015 kl. 09:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband