Samfylkingin enn við völd í utanríkismálum Íslands

c994096449fe5544803b0c2215177d6a

 

 

 

 

 

 

 

Það er með eindæmum að sjá kjörna leiðtoga þjóðarinnar tala um "formsatriði", "áréttingar", "hvort þörf sé á afturköllun ESB-aðildarumsóknar", "ljúka málinu með einhverjum hætti", "hefði verið betra að klára þetta", "það er ekki útilokað að hægt sé að klára þetta", "málið er dautt", "spurning um hversu langt menn vilja ganga til að klára þessi formlegheit" o.s.frv., o.s.frv.

Þingmenn setja lög. Lög gilda þar til þau eru afnumin eða ný lög með breytingum koma í þeirra stað. Af hverju gildir eitthvað annað um ESB-umsókn fyrri ríkisstjórnar? Er ríkisstjórnin að falla í gryfju sams konar blekkingarleiks og einkenndi fyrri ríkisstjórn og staðfestir inngöngubeiðnina í klúbbinn en "allt er í plati?"

Umsókn að ESB er að sjálfsögðu ekkert "formsatriði" - Þetta er eitt af stærstu pólitísku málum Íslands ekki síst vegna framkomu þingmanna sem neituðu að spyrja þjóðina, hvort hún vildi ganga með í ESB og gróflega misnotuðu umboð kjósenda með því að senda inn aðildarumsóknina til Brussel.

Í Svíþjóð og á meginlandinu hafa birst fréttir um að tillagan var afturkölluð og er það túlkað sem stefnubreyting ríkisstjórnarinnar sem nú hafi snúist hugur og vilji að Ísland gangi með í ESB. Alla vega að ríkisstjórnin stöðvi ekki áframhaldandi aðlögunarferli. Allir skilja þetta sem hlé á meðan verið er að finna leiðir fyrir Alþingi að taka skrefið að samþykkja yfirráð ESB á sjávarlögsögu landsins.

Á sínum tíma söfnuðust mörg atkvæði gegn Icesave og þá virtu margir þingmenn Sjálfstæðisflokksins þau atkvæði að vettugi. Núna gefa sömu þingmenn í ráðherrastólum tillögu Óskar nafnleyndar hærra undir höfði. Hvers vegna þetta misvægi í framkomu við fólk? Eru kjósendur núverandi ríkisstjórnar þýðingarminni en kjósendur ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur? Það er einkennilegt að sjá fólk sem kennir sig við sjálfstæði vera svo máttlaust í hnjánum að stjórnarandstæðingum er réttur taumurinn.

Ríkisstjórnin tæmir innihald lýðræðisins og breytir sjálfu Alþingi í formsatriði með afstöðu sinni. Það er annað Alþingi en þjóðin vill samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins. Þurfa þingmenn enn eina ferðina að vera áminntir um hvert hlutverk þeirra er og í umboði hverra þeir starfa???

Það er skylda núverandi ríkisstjórnar að þvo þennan smánarblett af Alþingi sem ESB-umsóknin er. Ríkisstjórnin svíkur loforð sín um breytta utanríkisstefnu ef hún staðfestir aðildarumsókn fyrri ríkisstjórnar með gjörðum sínum.

Verði slíkt upp á teningnum mun álit Alþingis og þingmanna hrapa eina ferðina enn. Meiri hluti kjósenda höfnuðu ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og vilja aðra utanríkisstefnu en þá sem Samfylkingin og Vinstri grænir nauðguðu upp á þjóðina.

 

 


mbl.is Ný ESB-tillaga kemur til greina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Tek hjartanlega undir með þínum skýru rökum, Gústaf Skúlason.

Og góðir voru Staksteinar Mbl. í fyrradag:

Rökleysur Evrópusambandssinna

Málflutningur Guðmundar Steingrímssonar er ágætt dæmi um hvernig samfylkingarmenn allra flokka tala um Evrópusambandsmál. Í viðtali við mbl.is sagðist hann vonast til að stjórnarmeirihlutinn hefði lært það af ESB-málinu að það verði „að tala betur saman“ og að það sé „ekkert hægt að hleypa þingstörfum svona upp“.

Þá sagði hann að það sé „alveg sáttafarvegur“ í ESB-málinu og að þar sem þetta sé deilumál þá verði það að fara í sáttafarveginn.

Vandinn er þó sá að „sáttin“ sem samfylkingarmennirnir bjóða er engin sátt heldur krafa um að aðrir sætti sig við að samfylkingarsjónarmiðin ráði þó að þau hafi orðið undir í síðustu þingkosningum.

Þetta er svo sem ekki nýtt því að sama krafa var uppi eftir kosningarnar 2009. Þá urðu samfylkingarsjónarmiðin um ESB-aðild líka undir en þeir sem urðu ofan á voru knúnir inn á sáttafarveginn til Brussel og eru þar enn.

Þá var aðild barin í gegnum þingið undirbúnings- og umræðulaust og þá töluðu samfylkingarmenn ekki um að ríkisstjórnin yrði að bæta samtalstæknina eða hleypa þingstörfum ekki upp.

Nú er búið að ræða málið í þaula og skrifa skýrslur en þá er talað um skort á umræðum og upphlaup.

Og þeir stjórnarliðar eru til sem telja ástæðu til að láta svona rökleysu ráða ferðinni."

(Tilvitnun í Staksteina lýkur.)

Jón Valur Jensson, 19.5.2014 kl. 05:03

2 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

Sæll Jón og kærar þakkir fyrir skrifin. Umsátrinu um Ísland er engan veginn lokið. Greinilega þarf fótfólkið að leggja til varnir svo ríkisstjórnin þori að fara með þá utanríkisstefnu sem hún lofaði og var kosin til að framkvæma. Það er öfugsnúið að kjósa Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn en sitja uppi með stefnu Samfylkingarinnar í utanríkismálum.

Austurvöllur næsta??

Gústaf Adolf Skúlason, 19.5.2014 kl. 10:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband