Pakki - pakki - pakki Búmm!

magician-1

 

 

 

 

 

 

 

 

Hjartansmál Samfylkingarinnar er að fara út af borðinu, um sinn a.m.k. Hvernig fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar haga sér á Alþingi mun koma þeim í koll í framtíðinni. Það eina, sem þessir flokkar hafa uppúr krafsinu er að tefja framgang málefna heimilanna og atvinnuuppbyggingar á Íslandi, tveggja mikilvægustu málaflokka landsmanna.

Kosningsvikin sem kratar reyna að kenna ríkisstjórninni um verða þeir að gera upp við þjóðina, sem séð hefur gegnum töfrabrögð þeirra og snúið baki við fyrri ríkisstjórnarflokkum. Kosningasvikin eru "svik" þjóðarinnar að hafa ekki kosið flokka stjórnarandstöðunnar að nýju í ríkisstjórn. Þann sannleika kemst stjórnarandstaðan ekki yfir.

Ný "búsáhaldarbylting" er ekki í spilunum ef dæma má þann "fjölda" sem sparkaði í öryggisgirðingu Alþingis 10. mars. Nokkrir vel klæddir einstaklingar greinilega efnum búnir að kaupa sér skó með stáltám héngu á grindum og spörkuðu.

Stjórnarandstaðan er dulítið merkilegt fyrirbæri. Á fundum sínum á Austurvelli hafa þeir skartað frambærilegum skáldum eins og Sigurði Pálssyni, sem hannað hefur innihaldið í nýrri sigurstefnu þeirra: Allt skal endurtekið þrívegis. Orð á íslensku duga ekki lengur ein og sér. Þessi nýja galdraformúla á að breyta íslenskum orðum í raunveruleika með því að endurtaka sama orðið þrisvar eins og töfraþulu og búmm verður það holdi klætt.

En hinn framúrskarandi hópur dávalda og töframanna stjórnarandstöðunnar gleymdi einu: Þau hafa sagt orðið pakki svo mörgum sinnum og svo mörgum sinnum oftar en tvisvar og svo mörgum sinnum oftar en þrisvar að þau hafa sjálf breyst í kyrfilega lokaðan pakka. 

Okkar góða Alþingi mun lifa af þennan pakka eins og aðra pakka af ýmsum stærðum og gerðum úr fortíðinni sem og í komandi framtíð. Þegar öllu er á botninn hvolft stendur stjórnarskrá lýðveldisins sig vel, lýðræðið eflist við hverja raun og Alþingi mun standa af sér tímabundna tilraunir til að grafa undan stoðum þess. Virðing sé öllum góðum þingmönnum, sem fylgja sannfæringu sinni og vinna að landsins gagni og nauðsynjum.

Dásamlegt að finna ilm vorsins, vaxandi birtu og almennilega ríkisstjórn á Íslandi!  


mbl.is „Það geta ekki allir orðið glaðir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Karl

Finnst þér að ríkisstjórnin og meirihluti Alþingis eigi að HUNDSA 49.000 undirskriftir??

Einar Karl, 11.3.2014 kl. 10:43

2 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

Finnst þér að stjórnarandstaðan eigi að hundsa 96.627 atkvæði lögð á núverandi stjórnarflokka í síðustu alþingiskosningum?

Gústaf Adolf Skúlason, 11.3.2014 kl. 11:45

3 Smámynd: Einar Karl

Hvað meinarðu??

Sá stærri af ríkisstjórnarflokkunum ýtti ESB-umræðunni til hliðar í kosningunum, til að þurfa EKKI að gera málið að úrslitaatriði, og til að fá atkvæði bæði ESB-sinna og andstæðinga.

ESB-viðræður voru EKKI KOSNINGAMÁL.

Þar fyrir utan, það er engan verið að hundsa með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þessi 96 þúsund mega líka taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Einar Karl, 11.3.2014 kl. 12:57

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þessi þjóðaratkvæðagreiðsla átti að vera ÁÐUR EN SÓTT VAR UM. Eins og komið hefur i ljós núna, þá er það eitt af skilyrðum ESB að þing og þjóð sé sammála um að ganga inn í sambandið. Það var ekki gert og þess vegna er málið í þeim hnút sem það er í dag.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.3.2014 kl. 13:07

5 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

Einar Karl, alveg rétt en þjóðin kaus flokka, sem ekki vilja að Ísland gangi með í ESB. Þar af leiðandi varð ESB að kosningamáli, hvort svo sem Samfylkingin trúir því eða ekki. Rétt að kjósendur ríkisstjórnarinnar geti tekið þátt í þjóðaratkvæðagreiðslum en þjóðin hefur aðeins haft tækifæri til að sýna hug sinn í síðustu alþingiskosningum til ESB, þar sem síðasta ríkisstjórn neitaði 227.896 einstaklingum á kjörskrá, að tjá sig áður en hún sendi inn umsóknina í nafni Íslands til Brussel. Er Ísland bara innsti hringur Samfylkingarinnar í augum Samfylkingarinnar?

Það er krafa um að ógilda niðurstöðu alþingiskosninganna að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um 1) mál sem síðasta ríkisstjórn gafst upp á s.l. kjörtímabil 2) að núverandi ríkisstjórn, sem hlaut kosningu m.a. vegna afstöðunnar til ESB sé bundin af pólitískri ákvörðun fyrri ríkisstjórnar.

Ásthildur takk, meira að segja ESB styður afstöðu núverandi ríkisstjórnar.

Gústaf Adolf Skúlason, 11.3.2014 kl. 13:27

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Jamm þeim er ekki vel við bjölluat, körlunum þarna í Brussel.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.3.2014 kl. 13:30

7 Smámynd: Einar Karl

Og skilaboðin til 49.000 manns bara þá ... "so what" ??

Gústaf Adolf, ef það á að vera hægt að ræða saman, þá verður þú að svara því sem ég segi, koma með andsvör við mínum rökum. Annars ertu bara að kalla útí loftið.

ég segi: "ESB-viðræður voru EKKI KOSNINGAMÁL."

Þetta rökstyð ég m.a. með vísan til kosningaloforða ALLRA núverandi ráðherra xD. xB lagði megináherslu á skuldaleiðréttingar og talaði lítið um ESB í kosningabaráttunni. Flettu upp ársgömlum blöðum og greinum ef þú ert búinn að gleyma þessu.

Ert þú með einhver andsvör við þessum RÖKUM ?

Einar Karl, 11.3.2014 kl. 13:52

8 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

Einar Karl, ég fullyrði: "Afstaðan til ESB var kosningamál." Það rökstyð ég með vísan til allra 96.627 atkvæða, sem lögð voru á ríkisstjórnarflokkana tvo, sem lýstu því yfir fyrir kosningar að Ísland væri betur sett utan ESB (en áfram innan EES). Svo má að sjálfsögðu ræða það, að ef innganga í ESB hefði verið þjóðinni mikilvæg, hvers vegna fól hún þá ekki gömlu ríkisstjórnarflokkunum traust sitt áfram? Í staðinn guldu þeir stærsta kosningaafhroð í sögu lýðveldisins. Skiptir það engu máli í umræðunni? Að "gleyma" eða "hoppa yfir" niðurstöður alþingiskosninganna er að halda þjóðinni og vilja hennar utanvið umræðuna.

Gústaf Adolf Skúlason, 11.3.2014 kl. 15:30

9 Smámynd: Halldór Björgvin Jóhannsson

Og skilaboðin til 49.000 manns bara þá ... "so what" ??

Setti borgarstórinn í reykjavík ekki þær línur þegar hann sagði það sama við tæplega 80 þúsund undirskriftum vegna flugvallar reykjavíkur? Ég bara spyr!

ég segi: "ESB-viðræður voru EKKI KOSNINGAMÁL."

Fyrir mínar sakir þá skipti það miklu máli fyrir mig að kjósa flokka sem ætla ekki að troða þjóðinni í ESB með góðu eða illu og því var þetta mikilvægt kosningamál fyrir mig, báðir stjórnarflokkarnir voru ekkert að fela það að báðir eru á mót ESB aðild og það kom fram í landsfundum og í fréttum, en þeir eyddu ekki öllum sínum tíma í að djöflast í þessu ESB rugli þegar þeir voru í kosningarbaráttunni.

Eina fólkið sem er búið að gera sólkerfi úr sandkorni eru íslenskir ESB aðildarsinnar, þetta er lítið og ómerkilegt mál sem á að taka út af borðinu eins og skot, þá er hægt að nota tímann í mikilvæg mál, þetta segi ég af því að það er ekkert mál að sækja um aftur ef vilji er fyrir því hjá þingi og þjóð. 

Halldór Björgvin Jóhannsson, 11.3.2014 kl. 16:36

10 Smámynd: Einar Karl

Gústaf Adolf,

þú talar um "ríkisstjórnarflokkana tvo, sem lýstu því yfir fyrir kosningar að Ísland væri betur sett utan ESB"

En þetta var ekki allt og sumt sem flokkarnir tveir sögðu fyrir kosningar?!

ALLIR NÚVERANDI RÁÐHERRAR sögðu mjög skýrt og skorinort í umræðum fyrir kosningar, aftur og aftur, að þetta væri mál væri þess eðlis ("of stórt fyrir einstaka flokka" o.s.fr.) að um það ætti að kjósa sérstaklega í þjóðaratkvæðagreiðslu.

AF HVERJU finnst þér núna allt í himnalagi að þessir ráðherrar standi ekki við þessi orð sín???

Ég myndi skilja það ef þú ert vanur að ljúga og plata, segja eitt og meina allt annað, en ég ímynda mér að þú sért alls ekki þannig maður.

Einar Karl, 11.3.2014 kl. 17:16

11 Smámynd: Einar Karl

... allir núverandi ráðherrar Sjálfstæðisflokks átti að standa þarna.

Einar Karl, 11.3.2014 kl. 17:16

12 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

Einar Karl, loforð um sérstaka þjóðaratkvæðagreiðslu er með í tillögu ríkisstjórnarinnar, sem þannig efnir loforðið:

"....Jafnframt ályktar Alþingi að ekki skuli sótt um aðild að Evrópusambandinu á nýjan leik án þess að fyrst fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort íslenska þjóðin stefni að aðild að Evrópusambandinu..."

Fyrri ríkisstjórn neitaði að hleypa þjóðinni að málinu áður en sótt var um aðild að ESB í nafni hennar. Krafa stjórnarandstöðunnar um þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi umsóknarferli er óframkvæmanleg eftir að þjóðin hefur hafnað umsóknarflokkunum í alþingiskosningunum með jafn afgerandi hætti. Hrun umsóknarflokkanna er þvert á móti staðfesting á því, að ESB-umsóknin er dauð. Krafa stjórnarandstöðunnar er því krafa um að ógilda niðurstöðu alþingiskosninganna, hvað varðar ESB.

Gústaf Adolf Skúlason, 11.3.2014 kl. 17:53

13 Smámynd: Einar Karl

"....Jafnframt ályktar Alþingi að ekki skuli sótt um aðild að Evrópusambandinu á nýjan leik án þess að fyrst fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort íslenska þjóðin stefni að aðild að Evrópusambandinu..."

"....Jafnframt ályktar Alþingi að ekki skuli sótt um aðild að Evrópusambandinu á nýjan leik án þess að fyrst fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort íslenska þjóðin stefni að aðild að Evrópusambandinu..."

Það er til lítils að álykta hvað Alþingi skuli gera einhverntímann eftir þetta kjörtímabil. Slík þingsályktun er bara ómark, þ.e. sá hluti hennar. Sett fram eingöngu til að slá ryk í augu fólks.

Heiðarlegra og drengilegra væri að EFNA loforðið, með því einfaldlega að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu. Á þessu kjörtímabili.

Einar Karl, 11.3.2014 kl. 22:58

14 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

Loforðið er viljayfirlýsing um aðkomu þjóðarinnar að málinu á lýðræðislegum grundvelli. Ákvæðið um þjóðaratkvæðagreiðsluna er jafnframt stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar byggt á stefnuskrám ríkisstjórnarflokkanna. Þetta er trygging kjósenda fyrir því, að ekki verði haldið áfram í þessu stóra máli án þess að þjóðin fái fyrst að tjá hug sinn. Þetta er loforð um að hlusta á þjóðina og gefa henni aðgang að málinu. Það er allt annar hlutur en stjórnarandstaðan er að krefjast þ.e.a.s. þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald aðlögunarferils Íslands að ESB, sem fyrri ríkisstjórn hvorki spurði þjóðina um né tókst að framfylgja. Enginn af ráðamönnum núverandi ríkisstjórnarflokka hefur nokkru sinni lofað kjósendum því, að þeir ætluðu að framfylgja misheppnaðri stefnu fyrri ríkisstjórnar, ef þeir kæmust til valda. Stjórnarandstaðan verður að viðurkenna þá staðreynd, að kjósendur snéru við henni baki og fylgið hrundi um helming. Væri það ekki skynsamlegra fyrir Samfylkinguna og Vinstri græna að nota tímann til að skilgreina, hvað fór úrskeiðis og reyna að ná betri árangri í næstu kosningum? Af hverju að eyða tíma og orku í að skamma stjórnarandstæðinga fyrir eigin mistök og tefja störf Alþingis?

Gústaf Adolf Skúlason, 12.3.2014 kl. 00:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband