Allt rétt hjá Íslendingum nema verðtryggðu húsnæðislánin

SteveKeenÉg birti hér viðtal sem ég tók við ástralska prófessorinn Steve Keen sem er yfirmaður hagfræði- og efnahagssögudeildar Kingston Háskóla í London. Viðtalið var sent að stærsta hluta til í útvarpi Sögu fyrir nokkru. 

Steve Keen er virkur gagnrýnandi hefðbundinnar hagfræði. Hefðbundnum hagfræðingum tókst ekki að sjá fyrir fjármálakreppuna 2008. Ekki vegna þess að hún væri ófyrirsjáanlegur “Svartur Svanur” heldur vegna rangra fyrirframskoðana sem sniðganga orsakir kreppunnar, þ.e.a.s. að bankarnir lána frekar fé til fjárglæfraspilamennsku en heilbrigðra fjárfestinga. Keen sá fyrir kreppuna vegna þess að hann styðst við eigið líkan sem mælir skuldir og peninga sem samtvinnaðan þátt hagfræðinnar. Ýmsum hefðbundnum hagfræðingum finnst Steve Keen meira líkjast verkfræðingi en hagfræðingi og segist hann vera stoltur af því. Í bók sinni Debunking Economics (Afhjúpandi hagfræði) útskýrir hann margar skynsamlegar staðreyndir hagfræðinnar án þess að nota stærðfræðilegar útskýringar. Steve Keen hefur skrifað fjölda greina um hagfræði og er mjög virkur í umræðu heimsins um efnahagsmál. Hann er jafnframt tíður gestur í sjónvarps- og útvarpsviðtölum.

Heimurinn fer í gegnum verðhjöðnunarskeið líkt og Japan s.l. 25 ár

Hvernig getum við breytt peningakerfinu, telur þú að við séum að fá aðra risaefnhagsbólu sem springur núna í heiminum?

Mest allur vestræni heimurinn er í ferli eftir stóru efnahagsbóluna 2008, við lifum í tíma eftirstöðvanna. Eina stóra landið sem á eftir að fara í gegnum stækkandi fjármálabólu sem hlýtur að springa og er líklega að því á þessarri stundu er Kína. Við sjáum því fram á fjármálahrun í Kína og efnahagsörðuleika í heiminum samfara því. Að öðru leyti fer heimurinn í gegnum langdregið verðhjöðnunarferli eins og ríkt hefur í Japan um 25 ára skeið, sem er samdráttar- og stöðnunarskeið vegna of mikillar aukningu einkaskulda og annarra skulda.

Skuldaaukning OECD ríkjanna nemur 35% eftir 2007. Hvað hefur þú að segja um það?

Þetta er blanda bæði einka- og opinberra skulda. Ég beini sjónum að einkaskuldum sem helsta orsakavaldinum í því efnahagsferli sem við erum í og ríkisskuldum sem letjandi þátt í öllu saman. Það virðist vera reglan, að þegar einkaskuldir aukast þá minnka ríkisskuldir, vegna þess að einkaskuldir í auknum mæli hafa örvandi áhrif. Þegar efnahagurinn vex myndast aukið undirlag fyrir ríkisfjárlög og skuldir ríkisins minnka. Þegar kreppa skellur á eins og árið 2008 dragast einkaskuldir saman af mörgum ástæðum eins og t.d. við gjaldþrot á meðan skuldir ríkisins aukast. Þetta er ekkert jafnvægisferli þar sem einn þáttur stækkar og annar skreppur saman í jöfnum mæli. Raunverulega hættan vex, þegar einkaskuldirnar stækka.

Ef við tökum t.d. Bandaríkin, þá var ríkisskuldin um 60% af vergri þjóðarframleiðslu, þegar fjármálakreppan byrjaði. Núna er ríkisskuldin um 100% af vergri þjóðarframleiðslu og hefur því stækkað um 40%. Einkaskuldir voru 170% af vergri þjóðarframleiðslu í byrjun kreppunnar en hafa fallið niður í 145%. Í heildina hafa skuldir Bandaríkjanna aukist að meðaltali. Fremstu ástæður kreppunnar í dag er samdráttur efnahagslífsins frekar en há skuldastaða ríkisins. 

Ég hef lesið skrif þín um Quantative Easing (magnbundna íhlutun). Seðlabankar Bandaríkjanna og Evrópu hafa dælt milljörðum dollara og evra inn í kerfið. Hefði átt að fara öðru vísi að?

Ef við líkjum efnahagslífinu við bíl, þá setjum við bensín á bílinn til að geta keyrt hann áfram og koma honum á ferð. Smurolíu notum við til að smyrja vélina og gírkassann til að auðvelda skiptingu milli gíra. QE má líkja við að mikilli olíu hafi verið dælt á gírkassann til að reyna að keyra bílinn hraðar. Þú getur þrefaldað magn olíu á bílnum en það mun ekki hafa mikil áhrif á að bíllinn fari áfram. Til þess þarf nýtt bensín á tankinn. 

Ástæðan fyrir því að QE setur ekki efnahagskerfið í gang er sú, að þar er aðallega verið að kaupa skuldabréf af einkabönkum eins og í Bandaríkjunum. Meiningin með að kaupa skuldabréf bankanna var að hluta til gert til að auka öryggi húsnæðislána og auka við fé m.a. gegnum vexti. En í stað þess að búa til peninga, þá sköpuðust engir nýir peningar. QE gefur bönkum þess í stað mögulega á að skipta á bókfærðum eignumum þ.e.a.s. húsnæðisbréfum fyrir ríkisskuldabréf sem eykur eigur þeirra bara á pappírnum. Þetta eykur ekki raunveruleg eignaverðmæti bankanna. Og þar sem engin verðmætaaukning á sér stað, þá getur bankinn heldur ekki tekið á sig meiri ábyrgð gagnvart innsetningum viðskiptavinanna í formi peninga. Á meðan ábyrgð bankanna eykst ekki verða engir peningar skapaðir og engum nýjum peningum er bætt í kerfið. Þessu má líkja við bílinn, þar sem þú smyrð vélina svo hún gangi liðlegra en þú hefur ekki bætt neinu á tankinn til að keyra bílinn áfram.

Brjálæðislega geðveik hugmynd

Ég var á nýlega á fundi í Stokkhólmi þar sem verið var að kynna og ræða bókina "Á sundi með hákörlum". Í dag er búið að breyta reglum banka þannig, að ef banki fer á hausinn getur hann tekið peninga viðskiptavinanna.  

Þetta er brjálæðislega geðveik hugmynd. Hérna er verið að koma fram við okkur eins og fjárfesta sem erum að taka fjárfestingarákvörðun með því að leggja peninga inn á bankareikning. Þegar teknar eru ákvarðanir um fjárfestingu, þá er það eðlilegur hlutur að maður geti átt á hættu að tapa fénu ef fjárfestingin mistekst. En þegar fólk leggur peninga inn á bankabók og flytur á milli reikninga er það vegna þess að fólk lítur á bankann sem vöruhús fyrir peninga. Ef að bankinn myndi segja “Við tökum 40% af peningunum þínum vegna þess að þú ert fjárfestir sem ert að taka áhættu með innsetningunni”, þá eru skynsamlegustu viðbrögðin að taka peningana út af reikningnum og stoppa þeim undir dýnuna og nota þá þegar maður þarfnast þeirra. Þetta eyðileggur alveg hugmyndina um bankakerfið.

Þetta er vitlausasta hugmynd sem ég hef heyrt áratugum saman og þetta sýnir algjörlega hversu lítinn skilning búrókratar og hefðbundnir hagfræðingar hafa á því, hvernig peningarnir virka.

Evran er Frankensteinskrímsli

Talandi um búrókrata, þú hefur sagt að búrókratarnir í Brussel hafi búið til Frankenstein skrímsli úr evrunni. Getur þú útskýrt þetta nánar?

Hugmynd evrunnar er að trúa á að hægt sé að skapa einn gjaldmiðil fyrir Evrópu án þess að hafa sameiginleg fjárlög tengd gjaldmiðlinum. Við höfum Seðlabanka án fjármálaráðuneytis ásamt reglum um, að ríkisskuld megi ekki fara yfir 60% af vergri þjóðarframleiðslu eða að árlegur fjárlagahalli verði meiri en - 3%. Báður þessir hlutir eru spennitreyja í sjálfu sér. Það þýðir að þegar fjárhagurinn fer úrskeiðis og ríkisstjórnir þurfa að eyða meira fé en venjulega, þá verða þær samtímis að skera niður kostnaðinn. Þá sitjum við uppi með tvær takmarkanir í stað aðeins einnar.

Þetta er eins og að vera með loftkerfi sem dælir lofti inn í húsið og þegar kólnar úti heldur kerfið áfram að dæla inn köldu loftinu. Þetta er ótrúlaga slæmt kerfi og það er líka þess vegna sem við sjáum afleiðingar eins og t.d. í Suður Evrópu þar sem atvinnutölur eru langt yfir 10% í flestum ríkjanna og yfir 25% á Spáni og í Grikklandi. Þetta eru að mestu leyti bein áhrif lélegra reglna Maastricht sáttmálans og evrunnar. Það er hreint ótrúlegt að sjá hversu illa hlutunum er stjórnað í efnahagsmálum heimsins.

Hver er þá lausnin? Að taka upp þjóðlega gjaldmiðla á nýtt?

Þjóðlegir gjaldmiðlar er mun skynsamlegri en alþjóðlegur gjaldmiðill nema að þjóðirnar sameinist um eitt fjármálaráðuneyti sem getur þjónað öllu gjaldmiðlasvæðinu. Þá getur ríkið hlaupið tímabundið undir baggann þegar eitthvað fer úrskeiðis á einum stað og haldið hlutunum gangandi þar.

Bandaríkin eru heimsálfa með einungis einn gjaldmiðil. Það þýðir að ef t.d. Nebraska er með fjárlagahalla og verður peningalaust en vel gengur í Kaliforníu, þá geta yfirvöld tímabundið flutt hluta af skattapeningum Kaliforníu yfir til Nebraska til að leysa málin þar. Enginn yrði var við þetta, því ekki er haldið yfirlit yfir hvernig skattafé er varið milli ríkja í Bandaríkjunum. En í Evrópu er þeim málum haldið til haga þótt ekki sé til sameiginlegt fjármálaráðuneyti landanna. Þetta þýðir að þegar eitthvað fer úrskeiðis á evru svæðinu, þá gera reglur Maastrich sáttmálans ástandið enn verra. Það er því miklu betra fyrir löndin að taka upp þjóðlegan gjaldmiðil að nýju í stað þess að vera áfram í evrunni. Ekki nema að evrunni takist að brjóta sér leið út úr spennutreyjunni og burtu frá 3% reglunni - annars liggur leiðin beint í skipsbrotið. 

Einhvers staðar á einhverju stigi mun einhver öfga hægri hópurinn birtast og leiða úrsögn úr gjaldmiðlinum og eftir þjáningar í byrjun - aðallega í stærri ríkjunum, þá mun hópurinn skjóta rótum og fá stefnu sína viðurkennda, af því að það var réttur hlutur að skilja við evruna.  

Mér finnst þetta bara vera sorgarleikur. Evran átti að sameina Evrópu en hún býr til raunverulega sundrungu sem ekkert gefur eftir sundrungarástandinu 1930.

Allt rétt gert hjá Íslendingum nema verðtryggðu húsnæðislánin, þau þurfa að hverfa

Vegna þess að ég er Íslendingur þá er mér hugleikið að heyra álit þitt á hvernig þér finnst Íslendingum hafi tekist að bjarga sér út úr kreppunni og hvað íslenska krónan þýðir. Nýlega hlutu bankastjórar fangelsisdóma ....

Já það er stórkostlegt. Þetta er það sem hefði þurft að gera alls staðar í heiminum. Þið stingið bankastjórunum í steininn í staðinn fyrir að halda þeim á floti og réttlæta allt svindlið sem þeir hafa staðið fyrir síðustu áratugi. Þið neituðu líka að borga skuldir sem aldrei hefði upphaflega átt að stofna til. Þetta er ástæðan fyrir því, að Ísland kemur miklu betur út úr kreppunni en flest öll önnur lönd. Eina atriðið sem vandkvæði er á – og þú verður að leiðrétta ef ég fer ekki rétt með, er að húsnæðislán ykkar eru verðtryggð og tengd verðbólgunni sem þýðir að ef verðbólgan hækkar um 10%, þá hækka húsnæðislánin um 10%. Þetta er fáránlega slæmt fyrirkomulag og þið ættuð að afnema þessa reglu og gera húsnæðislánin sjálfstæð, óháð verðbólgu. Burtséð frá þessu atriði, þá hafið þið gert allt saman rétt, hvernig þið hafið tekið ykkur gegnum kreppuna. Þið hafið sýnt öðrum í heiminum, hvernig þeir eiga að fara að hlutunum, sem er allt annað en þeir hafa gert fram að þessu.

Best að gera þveröfugt við ráðleggingar hagfræðinga

Það er mikil umræða í gangi um verðtrygginguna og ég vona að henni verði breytt. En hvað finnst þér Steve, ég hef heyrt að hagfræðibækur séu ekki alltaf réttar, hvernig kemur framtíð hagfræðiþekkingarinnar til okkar?

Hagfræðin er enn að miklu leyti í sporum 19.aldar hugsunar, þrátt fyrir tölvur og tækni nútímans. Hagfræðingar nota 19. aldar hugsun til að skilja efnahagslíf 21. aldarinnar. Þeir vilja frekar viðhalda venjulegum mistökum í stað þess að þróa hagfræðikenningarnar áfram. Við þurfum að uppfæra hagfræðina í öllum heiminum og nota dýnamískar aðferðar fyrir dýnamísk kerfi í stað ósveigjanlegs kerfis eins og hagfræðingar nota. Hefði það verið gert værum við nú þegar með efnahag sem þjónar tilgangi sínum.  

Hagfræðin er svo léleg um þessar mundir að það er oftast best, þegar hagfræðingur er spurður ráða að gera þveröfugt við það sem hann ráðleggur manni.

Ha, ha, ha, er ástandið virkilega svona slæmt?

Já, það er það.

Ég þakka þér Steve Keen innilega fyrir samtalið og tímann til að ræða um þessi mál.

Það er sjálfsagt mál. Ég verð að heimsækja Ísland einhvern daginn. Það hefur orðið svo miklu áhugaverðara land eftir allt sem þið hafið gert til að vinna ykkur út úr kreppunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband