Svíar sömdu um undanþágu frá evrunni

saga

Ég átti áhugavert viðtal við sænska þingmanninn Karl Sigfrid fyrir útvarp Sögu í fyrri viku. Tilefnið voru ummæli José Manuel Barrósó um, að öll aðildarríki ESB að Bretlandi og Danmörku undanskildu yrðu að taka upp evruna. Kallaði sænski þingmaðurinn yfirlýsingu Barrósós “ögrandi fyrir Svía”, þar sem Svíar hefðu samið um undanþágu frá evrunni, er þeir gengu með í ESB 1994. Karl Sigrid er þingmaður Moderata Samlingspartiet síðan 2006 og á sæti í ESB-nefnd sænska þingsins.

karlsigfridÍ viðtalinu sagði Karl Sigfrid orðrétt:

“Það er opinber stefna Svíþjóðar, að Svíar ákveði sjálfir, hvort við tökum upp evruna eða ekki. Við kusum um evruna 2003, sem meirihluti Svía hafnaði á mjög skýran hátt og í dag vilja 9% Svía taka upp evruna. Í Evrópusáttmálanum segir, að öll lönd skulu ganga með í Myntbandalagið og taka upp evru með undanþágu fyrir Bretland og Danmörku.

Þegar Svíþjóð gekk með í ESB, þá sögðu sænsku samningamennirnir við Framkvæmdastjórnina að Svíar áskildu sér réttinn að vera fyrir utan evrusamstarfið nema ef þjóðin sjálf myndi velja að ganga með. Framkvæmdastjórnin tók á móti þessum upplýsingum - einnig skriflega og hefur engar athugasemdir gert við þetta, þannig að það er innifalið í samningi Svíþjóðar og Evrópusambandsins, að við ákveðum sjálfir, hvort og hvenær við tökum upp evruna eins og ég túlka það.”

Ef Framkvæmdastjórn ESB vildi þvinga Svía að taka upp evru yrðu hún fyrst að fá dómstólsúrskurð Evrópudómstólsins og síðan þarf að binda gengi sænsku krónunnar um tíma áður en hægt er að innleiða evruna. Svíþjóð hefur ekki gert það og að mati Karls Sigfrid væri það upp til Svía að ákveða, hvort þeir teldu sig “hæfa til að taka upp evruna.” Sigfrid trúir ekki að málin gangi það langt enda yrðu viðbrögð Svía mjög sterk ef ESB veldi þá leið.

“Það er furðulegt, að Barrósó skuli gefa út þessar yfirlýsingar, því þær slá tilbaka á þá sjálfa, það hljóta þeir að skilja líka vegna þess í hversu djúpri kreppu evran er. Mér finnst, að hann ætti að taka þessa yfirlýsingu til baka og viðurkenna, að þetta var nú ekki alveg rétt með málið farið, alla vega ekki gagnvart Svíum.”

Um þróun ESB í átt til sambandsríkis sagði Karl Sigfrid:

“Þetta er markmið alla vega Frakklands og Þýzkalands. Í Svíþjóð höfum við ekki þessa afstöðu, við lítum fyrst og fremst á samstarfið um opin landamæri fyrir frjálsa verslun milli ESB landanna. Við lítum alls ekki á, að við eigum að byggja nýtt ríki með sameiginlegri fjármálastjórn, sköttum o.þ.h. eins og ýmis lönd ESB vilja. Þetta leiðir til óheyrilegs stjórnmálatitrings núna á næstunni, t.d. hafa Bretar loksins brugðist við og ætla að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort þeir haldi áfram sem meðlimur. Þá mun stjórnin reyna að komast að samkomulagi við ESB um lausari bönd við ESB og Bretar taka afstöðu til þess eða hvort þeir segi sig alfarið úr sambandinu.

Miklar skuldbindingar fylgja því að ganga með í ESB, sem fá yfirgripsmiklar afleiðingar, sem engan veginn má taka létt á. Það höfum við séð í Svíþjóð, að Evrópusambandið hefur breyst mjög mikið frá því við gengum með 1994, það er geysilegur munur á ESB í dag og ESB eins og það var þá. Öll þróunin er í átt að sameiginlegri ákvarðatöku.”

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Það skiptir engu máli hér Gústaf, hvað menn segja innanborðs í Svíþjóð. Þeir geta sagt hvað sem þeim sýnist.

En í nýju stjórnarskrá Evrópusambandsins, Lissabonsáttmálanum, sem Svíþjóð hefur eiginhandaráritað fyrir hönd sænsku þjóðarinnar, stendur svart á hvítu að evran ER mynt Evrópusambandsins. Evran ER mynt Evrópusambandsins.

Það tók 28 lönd 7 ár að nauðga stjórnarskrá Evrópusambandsins í gegnum 28 þjóðþing landanna. Sjö ár.

Þessi stjórnarskrá gildir nú yfir stjórnarskrá Svíþjóðar. Svíar geta hummað evruupptökuna fram af sér í ákveðinn tíma. En svo mun borðið fanga þá. Borðið í Evrópusambandinu fangar alltaf alla þá sem skrifa undir sáttmálana.

28 þjóðþing 28 ríkja hafa ekki undirritað neinn sérstakan sáttmála um að Svíþjóð þurfi ekki að lúta stjórnarskrá Evrópusambandsins á sviði myntmála.

Svíar eru orðnir hræddir. Hræddir við það sem þeir í leyfisleysi hafa gert sænsku þjóðinni og geta ekki tekið aftur

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 21.5.2013 kl. 01:52

2 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

Rétt hjá þér Gunnar um stjórnarskrána og gildir það sama um Maastrichtsáttmálann, sem einungis 4 lönd af öllum sem skrifuðu undir fylgja í dag. Það virðist ekki alveg vera að marka allar þessar "sameiginlegu" ákvarðanir, því vissir mega brjóta þær, aðrir ekki. Kraftur stærðarinnar ræður för.

Túlkun Karls Sigfrids stendur fyrir Svía og er í senn óþyrmileg áminning um pólitískan samning, sem ekki alltaf fer að lögum eins og við höfum kynnst m.a. í Icesave. Það sem Sigfrid er að segja, er að ef framkvæmdastjórnin reyni að skikka Svía til að taka upp evruna muni Svíar gera uppreisn. Allar þjóðir eru ekki með í myntbandalaginu og Svíar eru ekkert á leiðinni þangað, hvað svo sem stjórnarskrá ESB eða skoðunum Barrósó líður.

Gústaf Adolf Skúlason, 21.5.2013 kl. 07:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband